Viðskipti innlent

Enn að rann­saka sam­ráð í sorp­hirðu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ólafur Þór Hauksson er héraðssaksóknari. Hann segir rannsókn enn í gangi. 
Ólafur Þór Hauksson er héraðssaksóknari. Hann segir rannsókn enn í gangi.  Vísir/Vilhelm

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir rannsókn embættisins og Samkeppniseftirlitsins á meintu samráði fyrirtækjanna Terra og Kubbs í sorphirðu enn í gangi. 

Greint var frá því við lok októbermánaðar að embættið hefði með aðstoð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu farið í níu húsleitir og handtekið sex í tengslum við rannsóknina. Öllum var sleppt að lokinni skýrslutöku.

Rannsóknin snýst að útboðum sveitarfélaga vegna sorphirðu en samkvæmt heimildum fréttastofu er til rannsóknar hvort fyrirtækin hafi viljandi hætt við þátttöku í útboðum og hvort þau hafi skipt á milli sín markaðssvæðum.

Ólafur Þór segir ekki hafa verið farið í fleiri húsleitir eða handtökur í tengslum við rannsóknina. Hún sé enn í gangi, hann geti ekkert sagt um sakarefni og vísar í tilkynningu sem birt var um rannsóknina á vef Samkeppniseftirlitsins.

Neita ásökunum um samráð

Forráðamenn Kubbs neituðu öllum ásökunum um samráð í kjölfar yfirlýsingar Samkeppniseftirlitsins en Terra hefur ekkert gefið út um rannsókn málsins. 

Neytendasamtökin sendu inn ábendingu til samkeppnisyfirvalda vegna fyrirtækjanna Terra og Kubbs eftir að grunur vaknaði um að fyrirtækin væru að skipta á milli sín mörkuðum. Formaður samtakanna sagðist í október líta málið grafalvarlegum augum.


Tengdar fréttir

Húsleit hjá Terra

Samkeppniseftirlitið lét framkvæma húsleit hjá Terra í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Terra. Þar segir að málið varði rannsókn eftirlitsins á meintum brotum á samkeppnislögum í tengslum við útboð sveitarfélaga á sorphirðu.

Starfsmenn Kubbs og Terra grunaðir um samráð

Embætti héraðssaksóknara framkvæmdi í dag húsleitir og aðrar aðgerðir til þess að afla gagna og upplýsinga vegna ætlaðra brota tveggja fyrirtækja á markaði fyrir úrgangsþjónustu á samkeppnislögum. Fyrirtækin eru Terra og Kubbur. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru sex starfsmenn fyrirtækjanna handteknir í aðgerðunum. Framkvæmdar voru húsleitir á níu stöðum. Alls tóku 30 starfsmenn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, héraðssaksóknara og Samkeppniseftirlitsins þátt í aðgerðunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×