Innlent

Vilja tryggja stöðu ungs fólks í próf­kjöri Sam­fylkingarinnar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Stjórn Hallveigar
Stjórn Hallveigar Aðsend

Hallveig, félag Ungs jafnaðarfólks í Reykjavík, ákvað á félagsfundi þann 12. nóvember að halda forprófkjör í desember 2025 fyrir prófkjör Samfylkingar í sveitarstjórnarkosningum 20226. Forseti segir það tilraun hreyfingarinnar til að koma ungu fólki að í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Illa hafi gengið í síðasta prófkjöri að koma ungum einstaklingum að.

Í tilkynningu segir að forprófkjör sé prófkjör þar sem félagar Hallveigar, ungs jafnaðarfólks í Reykjavík, muni kjósa tvo einstaklinga á aldrinum 18 til 35 ára sem munu svo verða fulltrúar ungs fólks í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fer fram 24. janúar 2026.

„Staðreyndin er sú að það vantar ungt fólk í pólitík. Við höfum séð að ungt fólk hefur ekki náð árangri í prófkjörum innan flokksins. Þetta er viðbragð okkar við því. Hallveig er að taka af skarið til þess að koma ungu fólki í borgarstjórn. Ekki bara í þágu ungs fólks heldur í þágu allra borgarbúa. Síðast þegar Samfylkingin gaf ungri manneskju tækifæri varð hún forsætisráðherra,“ segir Steindór Örn Gunnarsson, forseti Hallveigar, og á við Kristrúnu Frostadóttur.

Í samtali við fréttastofu segir Steindór Örn að ákveðið hafi verið að miða við tvo einstaklinga til að koma fleirum að og koma í veg fyrir að þeir keppi um sömu sætin.

„Við lentum í því síðast að tveir ungir karlmenn voru að berjast um sömu atkvæði fyrir sömu sæti og það endaði þannig að hvorugur náði sæti, þannig að þetta er hugsað til að koma í veg fyrir það,“ segir hann.

Umræddir frambjóðendur eru þeir Pétur Marteinn Urbancic Tómasson og Stein Olav Romslo.

Steindór Örn segir auðvitað ekki gefið að forprófkjörið tryggi árangur en þau telji líklegra að ná betri árangri með þessum hætti. Hann segist ekki hafa upplýsingar um það hvort einhver hafi formlega lýst yfir framboði en hann hafi heyrt í um fimm manns sem hafi lýst yfir áhuga á að vera formaður.

Framboðsfrestur í forprófkjörið rennur út þann 2. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×