Skoðun

Snýst um deilur Dags og Krist­rúnar

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Tilgangurinn með skrifum Dags B. Eggertssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um Evrópusambandið og evruna undanfarnar vikur hefur öðrum þræði verið að reyna að koma höggi á Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra og formann flokksins. Þekkt er þegar Kristrún sagði Dag aðeins vera aukaleikara í Samfylkingunni fyrir þingkosningarnar fyrir ári og yrði ekki ráðherra. Þá hvatti hún fólk til þess að strika nafn hans út frekar en að sleppa því að kjósa flokkinn.

Dagur vonaðist að eigin sögn til að verða allavega þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Þess í stað gekk formennskan til Guðmundar Ara Sigurjónssonar sem kom einnig nýr inn á þing eftir kosningarnar fyrir ári eins og Dagur og kom að sama skapi úr sveitarstjórnarmálunum eins og hann en hins vegar með miklu minni reynslu í þeim efnum. Dagur fékk ekki einu að verða varaformaður þingflokksins og heldur ekki formaður einnar af fastanefndum Alþingis.

Spurð í Spursmálum á mbl.is fyrir þingkosningarnar út í frammistöðu Dags sem borgarstjóra Reykjavíkur, ekki sízt ábyrgð borgarstjórnarmeirihlutans undir hans stjórn á verðbólgunni þar sem ekki hefði verið byggt nógu mikið af íbúðarhúsnæði í borginni, svaraði Kristrún því einkum til að hún hefði ekki setið í borgarstjórn. Vildi hún aðspurð ekki taka undir það að Dagur hefði verið hennar maður í borginni. Með öðrum orðum afneitaði hún honum hreinlega.

Deilur þeirra Dags og Kristrúnar voru viðfangsefni pistils sem ég ritaði á Stjórnmálin.is í janúar síðastliðnum. Þar sagði ég að það sem þá hefði komið fram í þeim efnum væri að öllum líkindum aðeins forsmekkurinn. Dagur væri vanur því að vera í aðalhlutverkinu og ólíklegt að hann tæki því þegjandi og hljóðalaust að vera ítrekað tuktaður til af formanni flokksins. Raunar er miklu nær að segja að Kristrún hafi ítrekað niðurlægt hann og hent honum út í horn.

Til að mynda sagði Dagur þannig í lokaorðum pistils um evruna í Morgunblaðinu nýverið að enginn væri að tala um hana. Í því fólst augljóst skot á Kristrúnu. Komu þau orð í kjölfar óánægju forystu Viðreisnar með það að Samfylkingin væri ekki að tala fyrir inngöngu í Evrópusambandið fyrir utan einstaka þingmann sem alltaf hefur gert það. Dagur telur sig ljóslega hafa fundið leið til þess að reyna að ná sér niðri á Kristrúnu. Hann mun væntanlega halda því áfram.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál)




Skoðun

Sjá meira


×