Skoðun

Er Hvamms­virkjun virki­lega þess virði?

Ólafur Margeirsson skrifar

Hvammsvirkjun er fyrirhuguð virkjun Landsvirkjunar í Þjórsá, neðan við Búrfellsstöð. Fyrirhugað uppsett afl er 95MW og metin orkuframleiðsla á ári í kringum 740 GWst.

Blásið hefur um virkjunaráformin (sjá t.d. hér og hér) og nýlega féll gerðardómur í máli tengdu virkjuninni. Í dómnum var fjallað um endurgjald fyrir vatnsréttindi sem Landsvirkjun skal borga íslenska ríkinu. Burtséð frá því hvað endurgjaldið var ákveðið lágt (0,85% af stofnkostnaði Hvammsvirkjunar, sem vekur upp spurningar um hvort íslenska ríkið sé í raun að niðurgreiða virkjunina) þá er það stofnkostnaðarmatið sjálft sem er áhugavert því það vekur upp alvarlegar spurningar um hvort Hvammsvirkjun sé arðbær fjárfesting.

Hvað kostar Hvammsvirkjun? Tæpa 100 milljarða.

Í gerðardómnum (sem því miður hefur ekki enn verið birtur á netinu) segir í 219. málsgrein (feitletrun bætt við):

Með hliðsjón af framangreindu er það mat gerðardómsins að rétt sé að miða við hlutfallið 0,85% af stofnkostnaði Hvammsvirkjunar sem þannig verður lagt til grundvallar. Sóknaraðili hefur reiknað stofnkostnað Hvammsvirkjunar sem 84.000.000.000 króna miðað við verðlag í ágúst 2022. Á þeim grundvelli verður endurgjald fyrir afnot vatnsréttinda varnaraðila í 65 ár vegna Hvammsvirkjunar 714.000.000 krónur. Þá fjárhæð ber að framreikna til gjalddaga sem slegið er föstu af hálfu gerðardómsins að sé 90 dögum eftir útgáfu virkjunarleyfis vegna Hvammsvirkjunar. Þar sem nefnd fjárhæð stofnkostnaðar miðast við verðlag í ágúst 2022 ber að framreikna hana miðað við breytingar á byggingarvísitölu frá þeim tíma til gjalddaga en í ágúst var vísitalan 108,3 stig. Eðlilegt er að miða við þá vísitölu þar sem útreikningar sóknaraðila hafa tekið mið af henni auk þess sem þessi vísitala var lögð til grundvallar í fyrirliggjandi fordæmum,…

84 milljarða króna stofnkostnaðurinn árið 2022 er nú orðinn tæpir 100 milljarðar króna m.v. núverandi byggingarvísitölu. Svo það er það sem Hvammsvirkjun kostar.

Og það er þessi hái stofnkostnaður sem gerir Hvammsvirkjun, að öllum líkindum, óarðbæra.

Í stuttu máli

Það er best að gefa þér niðurstöðuna strax lesandi góður:

  1. Líftímakostnaður orku frá Hvammsvirkjun er of hár til að hún sé samkeppnishæf við marga aðra orkugjafa.
  2. Ávöxtun fjárfestingar Landsvirkjunar í Hvammsvirkjun er of lág að gefnum raunhæfum forsendum.

Nokkrir reikningar

Líftímakostnaður er sá kostnaður sem fellur til vegna einhvers mælt yfir allan líftíma viðkomandi vöru eða þjónustu. Líftímakostnaður er, í stuttu máli, stofnkostnaður þess sem byggt er til þess að framleiða eitthvað að viðbættum (núvirtum) rekstrarkostnaði.

Líftímakostnaður bíls fyrir heimilið er kostnaðurinn við að kaupa bílinn að viðbættum rekstrarkostnaði (rafmagnið, bensínið, tryggingarnar, o.s.frv.) uns bílnum hefur verið fargað (förgunarkostnaður er meðtalinn í líftímakostnaði).

Í tilfelli virkjana er líftímakostnaður reiknaður á hverja orkueiningu sem framleidd er. Hann er venjulega mældur í USD á hverja megawattstund (USD/MWst) eða kílówattstund (USD/kWst). Alþjóðlegur samanburður er gerður hér síðar í greininni við aðra orkuöflunarkosti og því verður líftímakostnaður Hvammsvirkjunar hér reiknaður í USD/MWst.

Langmest (ca. 90%) af líftímakostnaði vatnsaflsvirkjana fellur til við stofnkostnað, þ.e. þegar þær eru byggðar. ISK 100 milljarða stofnkostnaður Hvammsvirkjunar eru um USD 750 milljónir. Aðrar forsendur, þ.m.t. árlegur rekstrarkostnaður (uppsafnaður núvirtur rekstrarkostnaður er, aftur, aðeins um 10% af líftímakostnaði vatnsaflsvirkjana) má sjá í eftirfarandi töflu.

Tafla 1: Grunnforsendur Hvammsvirkjunar

Heimild: Landsvirkjun, höfundur

Það er góð regla þegar fjárfestingar eru skoðaðar að gera nokkrar sviðsmyndir. Hér verður stuðst við fjórar sviðsmyndir:

  1. Grunnsviðsmynd: USD 750m stofnkostnaður, 10% óvoguð ávöxtunarkrafa
  2. Bjartsýn sviðsmynd: USD 750m stofnkostnaður, 6% óvoguð ávöxtunarkrafa
  3. 20% hærri stofnkostnaður (USD 900m), 6% óvoguð ávöxtunarkrafa
  4. 20% hærri stofnkostnaður (USD 900m), 10% óvoguð ávöxtunarkrafa

Það skal tekið fram að 6% er lág óvoguð ávöxtunarkrafa. Til samanburðar eru 30 ára bandarísk ríkisskuldabréf í kringum 4,7% en þeim fylgir langtum minni áhætta en hugsanleg fjárfesting í Hvammsvirkjun. Auðvelt væri að finna fjárfestingarkosti, t.d. í fasteignum, sem eru með minni áhættu en Hvammsvirkjun en gæfu af sér hærri ávöxtun en 10% (óvogað).

Því er eðlilegt að ætli Landsvirkjun að finna fjármagn, sem ekki er niðurgreitt af hinu opinbera, til að fjárfesta í Hvammsvirkjun verði virkjunin að skila a.m.k. 10% ávöxtun á fest fjármagn (óvogað). Séu lán tekin til að fjármagna fjárfestinguna eykst áhættan enn frekar og ávöxtunarkrafan þar með líka. Eftir sem áður er 6% ávöxtunarkrafa notuð hér til að sýna m.a. hversu óraunhæf fjárfestingin í raun er.

Næsta mynd sýnir hvernig líftímakostnaður orkunnar frá Hvammsvirkjun þróast eftir því sem árin líða. Líftímakostnaðurinn fellur hratt í byrjun því eftir því sem árin líða dreifist stofnkostnaðurinn yfir á fleiri ár.

Í stuttu máli er bjartsýna sviðsmyndin (USD 750 milljóna stofnkostnaður, 6% óvoguð ávöxtunarkrafa) að skila líftímakostnaði upp á ca. USD 70/MWst. Versta sviðsmyndin sem hér er sett upp (USD 900m stofnkostnaður, 10% ávöxtunarkrafa) skilar líftímakostnaði upp á nærri USD 130/MWst.

Mynd 1: metinn líftímakostnaður Hvammsvirkjunar eftir stofnkostnaði og ávöxtunarkröfu

Heimild: útreikningar höfundar

Er þetta hár líftímakostnaður? Já, það er hann.

Það má t.d. bera þennan líftímakostnað við metinn líftímakostnað annarra orkugjafa. Samkvæmt nýjustu skýrslu Alþjóðastofnunar um Endurnýjanlega Orkugjafa (International Renewable Energy Agency, IRENA) var líftímakostnaður vatnsaflsvirkjana árið 2024 í kringum 57 USD/MWst (eða 0.057 USD/kWst). Líftímakostnaður vatnsaflsvirkjana var lægstur fyrir ekki nema 7 árum síðan. En nú eru sólarsellur um 25% ódýrari en vatnsafl og vindafl um 40% ódýrara en vatnsafl sé horft á líftímakostnað (sjá næstu mynd).

Mynd 2: metinn líftímakostnaður (mældur í USD / kWst) ýmissa orkugjafa

Heimild: IRENA

Mikilvægt er líka að átta sig á að óvissan um hver líftímakostnaðurinn er getur verið mikill. Í tilfelli vatnsaflsvirkjana mat IRENA líftímakostnaðinn að meðaltali 57 USD/MWst en bilið var frá um 25 USD/MWst upp í ca. 110 USD/MWst, allt eftir t.d. nýtni og stærð virkjananna. Nýtnihlutfallið (um 90%) á Hvammsvirkjun er raunar ótrúlega gott m.v. það sem bestu vatnsaflsvirkjanir heims eru að ná (um 70%) samkvæmt IRENA. Gott væri að fá staðfestingu á því að nýtnihlutfallið geti virkilega verið svona hátt.

Hvað með orkuverðið?

Hár líftímakostnaður er vandamál fyrir Landsvirkjun því hann dregur úr arðsemi virkjunarinnar og gerir hana ósamkeppnishæfa m.v. aðra orkugjafa (sjá mynd 2). Markaðsverð á heildsölumarkaði á dag er í kringum 50 USD/MWst. Aðrir stórir kaupendur, eins og t.d Norðurál, borga oft lægra verð eða nær 40 USD/MWst (sjá mynd 3) sem talnaglöggt fólk áttar sig á að er lægra en jafnvel lægsta matið á líftímakostnaði orku frá Hvammsvirkjun (ca. 70 USD/MWst).

Mynd 3: mánaðarlegt orkuverð (USD/MWst) til Norðuráls eftir samningi

Heimild: Norðurál (Norðurál‘s Power Purchases - Nordural)

Lágt orkuverð í dag þarf þó ekki endilega að vera vandamál því það getur auðveldlega hækkað í framtíðinni. Á sama tíma er líftímakostnaðurinn að lækka (að því gefnu að stíflan standi af sér jarðskjálfta og slíkt).

Hækkunin á orkuverði þarf þó að vera nokkuð stíf til þess að virkjunin nái nauðsynlegri arðsemi. Þannig má t.d. sjá að ef Landsvirkjun selur orkuna á fyrsta ári fyrir USD 50/MWst (ca. orkuverð á markaði í dag) og orkuverðshækkun næstu 80 ár verður í samræmi við síðustu 15 ár (2,0% á ári) er ávöxtun á Hvammsvirkjun í kringum 6,4% m.v. USD 750 milljóna stofnkostnað (sjá töflu 2).

Það er of lágt og er ekki áhættunnar virði. Orkuverðshækkunin þyrfti að vera um 5% ári til að ná 10% ávöxtunarkröfu og 6% á ári ef stofnkostnaður er USD 900 milljónir.

Taflan hér að neðan sýnir ávöxtun á Hvammsvirkjun í mismunandi sviðsmyndum. Til að ná ásættanlegri ávöxtun (um 10%) verður að halda stofnkostnaði í USD 750 milljónum. Við erum nú þegar þar m.v. uppreiknaðan stofnkostnað út frá nýlegum gerðardómi (tæpir 100 milljarðar króna).

Tafla 2: óvoguð ávöxtun Hvammsvirkjunar m.v. ólíkan stofnkostnað og ólíka hækkun orkuverðs

En þar fyrir utan verður orkuverð að hækka ca. 3x hraðar en það hefur gert síðustu 15 ár m.v. verð á orku til Norðuráls. Slík orkuverðshækkun á ári er afar ólíkleg, sérstaklega því líftímakostnaður annarra orkugjafa hefur fallið hratt og þar með verður framboð þeirra meira. Samkeppnishæfni vatnsaflsvirkjana í dag er einfaldlega kominn á par við það sem gengur og gerist í öðrum orkugjöfum.

Betra að snúa við áður en lengra er haldið?

Landsvirkjun er þegar búin að eyða um nokkrum milljörðum króna í Hvammsvirkjun. Það er slatti en eftir sem áður aðeins lítill hluti af væntum stofnkostnaði virkjunarinnar.

Það væri vitanlega sárt að hætta við núna. En stundum er betra að hugsa sinn gang áður en lengra er haldið: nokkurra milljarða króna kostnaður Landsvirkjunar nú þegar réttlætir ekki að henda fleiri krónum á eftir slæmum – sérstaklega eftir að áreiðanleikakönnun sýnir að fjárfestingin sé ekki áhættunnar virði.

En svo getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér og að allir þessir útreikningar mínir séu út úr korti. Ég vona þá að Landsvirkjun leiðrétti mig snarlega.

Höfundur er hagfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×