Skoðun

Fyrir hverja eru á­kvarðanir teknar?

Helga Þórisdóttir skrifar

Landið okkar er á norðurhjara veraldar. Hér er oft kalt og veður slæm. Við sem búum fyrir utan miðbæinn veljum því flest að nota einkabílinn til að sinna okkar erindum.

Þegar maður býr í samfélagi með öðrum, þá hjálpar það oftast að geta skilið ástæður breytinga. Þeir sem leið eiga um borgina á bílum hafa fengið að kynnast breytingum undanfarið, sem margir íbúar hafa ekki verið sáttir við. Svo dæmi sé tekið þá hafa ný umferðarljós verið sett upp víða auk þess sem hægri beygjur hafa verið teknar burt á mörgum stöðum eða settar á þær umferðarljós, til dæmis við Bústaðaveg.

Ég veit ekki með ykkur, en ég skil ekki þessar breytingar. Þær virðast leiða til aukinnar umferðar inn í íbúðahverfi auk þess sem tíma fólks er illa varið í bið á umferðarljósum eða í umferðateppu.

Á það ekki að vera markmiðið með umferðarstýringu að skapa eins gott flæði og mögulegt er? Er það ef til vill nýtt markmið að skapa óþarfa flöskuhálsa sem enginn hefur beðið um?

Verðum við ekki að biðja um skynsamlega ákvarðanatöku fyrir okkur borgarbúa? Ekki bara við Bústaðaveginn heldur í öllum hverfum borgarinnar?

Höfundur er forstjóri og íbúi í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×