Skoðun

Öku­réttindi á bein­skiptan og sjálf­skiptan bíl

Þuríður B. Ægisdóttir skrifar

Við búum í síbreytilegum heimi tækniþróunar og þar eru bílar ekki undanskildir. Á undanförnum árum hefur þróun bíla tekið stakkaskiptum sem leitt hefur til þess að dregið hefur mjög úr sölu á beinskiptum bílum hér á landi. Ef horft er til sölu fólksbíla síðustu þrjú ár þá er ljóst að sala til almennings á nýjum beinskiptum bílum er innan við 5% ár hvert. Ljóst er að hinir almennu kaupendur kjósa bíla án beinskiptingar, valið er sjálfskiptir bílar eða rafmagnsbílar að einhverju tagi. Þessari þróun þurfa stjórnvöld að vera vakandi yfir og bregðast við í tíma m.a. með því að aðlaga ökunám, ökuréttindi og ökupróf í takt við það sem nýr raunveruleiki kallar á.

Samkvæmt reglugerð um ökuskírteini nr. 830/2011 er heimilt að þreyta verklegt ökupróf til almennra ökuréttinda á sjálfskipta bifreið. Sé það gert fær ökumaður takmörkun í ökuskírteini sitt þ.e. tákntöluna 78 og hefur ekki heimild til að aka bíl með beinskiptingu. Vilji viðkomandi fá réttindi á beinskiptan bíl síðar verður hann að sækja aftur um námsheimild hjá sýslumanni, hafa samband við ökukennara og þreyta aksturshæfnispróf á beinskiptan kennslubíl hjá Frumherja.

Það er ekki aðeins hér á landi sem beinskiptum bílum hefur farið fækkandi og hafa lönd í kringum okkur brugðist við þeirri þróun. Ef við horfum til Danmerkur þá var sú breyting gerð að heimila verklegt próf á sjálfskiptum bíl en hafi ökunemi tekið a.m.k. sjö verklega ökutíma með ökukennara á beinskiptan bíl öðlast hann réttindi án takmörkunar, hann fær réttindi bæði á beinskiptan og sjálfskiptan bíl. Þriggja stafa tákntala er skráð við ökuréttindin til vitnis um það að viðkomandi hafi lokið fullnægjandi námi í akstri á beinskiptum og sjálfskiptum bíl en þreytt verklega ökuprófið á sjálfskiptum bíl. Samskonar leið er farin í Þýskalandi sem þýðir að ríki sem við berum okkur gjarnan saman við varðandi ökunám og ökuréttindi hafa þegar brugðist við þessum breytingum.

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu þá hefur ekki verið til athugunar að breyta núverandi fyrirkomulagi hér á landi þrátt fyrir að hlutfall nýrra seldra bíla til almennings hafi tekið umræddum breytingum. Við hjá Ökukennarafélagi Íslands teljum mikilvægt að gefa ökunemum kost á að þreyta verklegt ökupróf á sjálfskiptum bíl en öðlast í leiðinni réttindi að stjórna beinskiptum bíl hafi þeir lært og lokið tilætluðum fjölda ökutíma á beinskiptum bíl.

Mikilvægt er að samtalið fari fram sem fyrst varðandi ofangreint enda nauðsynlegt að endurskoða og rýna prófþætti, ökunám og umferðarmál reglulega með það í huga að koma á móts við þær breytingar sem eiga sér stað tengt málaflokknum. Að slíku samtali á Ökukennarafélag Íslands fagfélag ökukennara að koma að.

Höfundur er formaður Ökukennarafélags Íslands.




Skoðun

Skoðun

3003

Elliði Vignisson skrifar

Sjá meira


×