Viðskipti innlent

Segja Tango Travel verða að fara í gjald­þrot

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Forsvarsmenn Ferðamálastofu og Tango Travel eru ekki á eitt sáttir um útborgun trygginga.
Forsvarsmenn Ferðamálastofu og Tango Travel eru ekki á eitt sáttir um útborgun trygginga. Vísir/Anton Brink

Ferðamálastofa segir farþega eiga að beina kröfum sínum að ferðaskrifstofunni Tango Travel hafi ferðum þeirra verið aflýst enda sé ferðaskristofan starfandi og ekki gjaldþrota. Tango Travel segir Ferðamálastofu afbaka lögin og fara fram með meiðandi hætti.

Tango Travel tilkynnti á laugardagsmorgun að stafsemi hefði verið hætt í núverandi mynd og kenndi um óvænt gjaldþrot flugfélagsins Play. Einn eigandi ferðaskrifstofunnar sagði mikið fjármagn hafa farið í að bregðast við tíðindunum til að standa sín plygt gagnvart kúnnum sínum.

Bragi Hinrik Magnússon, einn eiganda ferðaskrifstofunnar, sagði fjölda farþega eiga bókaðar ferðir með ferðaskrifstofunni. Verkefnastaðan hafi verið frábær fram í tímann en ósanngjarnt væri að ferðaskrifstofur þyrftu að endurgreiða ferðir innan fjórtán daga. Það þýði að tugmilljónir króna séu handveðsettar Ferðamálastofu sem nýtist þá ekki ferðaskrifstofum í kröggum.

Forsvarsmenn Tango hafi haft rangt við

Í tilkynningu á vef sínum bregst Ferðamálastofa við tíðindum af Tango Travel. Segir stofan að kjósi ferðaskrifstofa að hætta rekstri án þess að fara fram á gjaldþrotaskipti þurfi hún að aflýsa ferðum viðskiptavina og endurgreiða þeim þær.

„Þannig að á meðan félagið er enn starfandi og hefur ekki verið úrskurðað gjaldþrota eiga farþegarnir að beina kröfum sínum til félagsins, ekki til Ferðatryggingasjóðs,“ segir í tilkynningunni. Það sama eigi við um pakkaferðir, það sé ferðaskrifstofan sem beri ábyrgð á að endurgreiða ferðina.

„Ef ferðaskrifstofa verður gjaldþrota eða leggur fram opinbera staðfestingu um að hún sé ógjaldfær birtir Ferðamálastofa skýrar leiðbeiningar hér á vefnum um hvernig hægt er að sækja um endurgreiðslu í gegnum Ferðatryggingasjóð. Ferðatryggingasjóður endurgreiðir m.ö.o. ekki þegar ferð fellur niður nema ferðaskrifstofan hafi í raun hætt starfsemi vegna gjaldþrots og leyfið fellt niður í kjölfarið. Upplýsingar um annað eru því ekki réttar.“

Þá segist Ferðamálastofa vilja benda á að það sé rangt sem hafi komið fram í viðtali við forsvarsmann Tango Travel í hádegisfréttum Bylgjunnar á laugardag að það hafi verið Ferðamálastofa og ferðamálaráðherra sem hafi veitt ferðaskrifstofunni fjórtán daga frest til að endurgreiða frest. Hið rétta sé að um sé að ræða lögbundinn frest samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Þá bendir Ferðamálastofa neytendum á að kanna rétt sinn til endurgreiðslu hjá kreditkortafyrirtækjum auk þess sem þeim er bent á kærunefnd vöru og þjónustu.

Ferðamálastofa flækist fyrir

Í svari Tango Travel til fréttastofu vegna tilkynningar Ferðamálastofu segir að reglum um endurgreiðslur hafi ekki verið ætlað að taka mið af því þegar helmingur farþegaflugfélaga á Íslandi far í gjaldþrot og skilji eftir sig holu sem erfitt sé fyrir markaðinn að eiga við.

„Í raun mætti skoða þetta sem Force majeure atvik. Auk þess höfðu stjórnvöld eftirlitsskyldu sjálf með flugfélaginu og voru í gegnum ráðgjafafyrirtæki nýlega búin að gefa það út að flugfélagið væri öruggt um næstu framtíð, skv. upplýsingum frá Eyjólfi Ármannsyni innviðaráðherra.“

Með það í huga segja forsvarsmenn Tango Travel að Ferðamálastofa gæti með auðveldum hætti komið til móts við ferðaskrifstofur og ýtt þeim í gegnum þann skafl sem þær séu nú í. Skafl sem ferðaskrifstofur hafi átt engan þátt í að skapa og eiga enga sök að máli. Eini glæpur þeirra, að því er segir í svari Tango, hafi verið að versla við íslenskt flugfélag sem var undir eftirliti íslenskra stjórnvalda.

Svörin meiðandi

Þá vísa forsvarsmenn Tango Travel með beinum hætti í yfirlýsingu Ferðamálastofu, þar sem vísað er til þess að kjósi ferðaskrifstofa að hætta rekstri án þess að fara fram á gjaldþrotaskipti þurfi hún að aflýsa ferðum viðskiptavina og endurgreiða þeim. Meðan félagið sé enn starfandi eigi viðskiptavinir því að beina kröfum þangað.

„Þessi setning er bæði röng og orðalag hannar meiðandi. Í fyrsta lagi þá er ógjaldfærni og gjaldþrot ekki sami hluturinn þótt Ferðamálastofa stilli því þannig upp. Það er ekki gerð krafa í lögum um það að ferðaskrifstofa verði að fara fram á eigið gjaldþrot til þess að greitt sé úr tryggingasjóðnum, það eru aðrir mjög skýrir möguleikar,“ segir í svari Tango.

„Einnig er það ekki svo að Tango Travel kjósi að hætta rekstri eins og það sé eitthvað val um það. Ferðaskrifstofan Tango Travel er neydd til þess að stöðva rekstur vegna þess að sá peningur sem félagið hafði undir höndum hefur allur farið í það að bjarga viðskiptavinum heim sem voru erlendis þegar fall flugfélagsins átti sér stað og að standa við þær ferðir þar sem stutt var í brottför enda búið að greiða allan kostnað erlendis vegna gistingar, viðburða, rútuferða o.s.frv. Að klára ekki slík verkefni hefði ollið mun meiri fjárhagslegum skaða ef ekki hefði verið ráðist í þær aðgerðir.“

Þá vísa forsvarsmenn Tango til orða Ferðamálastofu um að ferðatryggingasjóður endurgreiði ekki ferð nema ferðaskrifstofan hafi hætt starfsemi vegna gjaldþrots og leyfið fellt niður í kjölfarið. „Hér má aftur sjá hvernig Ferðamálastofa afbakar lögin og reynir enn og aftur að halda því fram að gjaldþrot sé eina leiðin. Þetta er rangt og skv. lögum dugir ógjaldfærni og einnig hefur Ferðamálastofa hefur sjálf heimildir til að fella niður ferðaskrifstofuleyfið og virkja tryggingar.“

Tango Travel geti ekki gert meira

Forsvarsmenn Tango Travel segja Ferðamálastofu tvísaga hvað varðar niðurfellingu á ferðaskrifstofuleyfinu. Ferðamálastofu hafi sagt að sér sé heimilt að fella niður ferðaskrifstofuleyfi Tango Travel og hefja útgreiðslur úr tryggingum ef Tango hafi ekki sinnt sínum lögbundnu skyldum.

„En ekki bara vegna vanskila á greiðslu gjalda. Samkvæmt þessu getur Ferðamálastofa svipt Tango Travel ferðaskrifstofuleyfi sínu strax í dag og hætt að flækja málin og greitt farþegum úr tryggingum Tango Travel og eftir atvikum úr Ferðatryggingasjóði ef þörf krefur, enda er Tango Travel ekki að ná að uppfylla sínar lögbundnu skyldur, þ.e. að standa við pakkaferðir viðskiptavina sinna.“

Segir í svörum Tango Travel að fyrirtækið sé hætt rekstri og sé ógjaldfært. „Tango Travel getur ekki gert neitt meira, það ætti að vera ljóst. Einnig benda þeir neytendum að ræða við Kærunefnd vöru og þjónustu. Hvað eiga þeir að gera ? Það stendur ekki neinn ágreiningur um rétt fólksins til að fá sínar ferðir endurgreiddar! Sá réttur er ótvíræður og lögbundinn. Með þessu gerir Ferðamálastofa ekkert nema að flækja málin fyrir neytendum og skapa óvissu og óþægindi fyrir alla aðila. Þeir vita alveg að ferðaskrifstofutryggingarnar eiga að taka á þessu og það er lélegt að afvegaleiða saklaust fólk.“

Allir fái endurgreitt

Tango Travel hafi fengið fjölda tölvupósta í kjölfar yfirlýsingar Ferðamálaskrifstofu, frá fólki sem haldi að það sé að missa peninginn sinn og líði mjög villa. Fullyrt er í svari Tango að allir muni fá endurgreitt vegna ferða sem ekki eru farnar.

„Höfum þetta alveg á hreinu, allir munu fá endurgreitt vegna ferða sem ekki eru farnar. Þeir munu fá endurgreitt frá Ferðamálastofu alveg sama hvað þau raula eða tauta. Það er bara skýrt í lögunum og það þýðir ekkert fyrir Ferðamálastofu að benda í allar áttir og afvegaleiða fólk.“

Segir ennfremur að eðlilegast væri ef kortafyrirtækin myndu vísa kröfum aftur til Ferðamálastofu enda séu tryggingar til staðar sem eigi að taka á þessu.

„Gott er að minnast á það að þetta er ekki bara tryggingasjóðurinn sem um ræðir heldur á Tango Travel (eða réttara sagt viðskiptavinir þess) tugi milljóna inni á reikningi handveðsettum Ferðamálastofu sem þau liggja núna á eins og ormur á gulli og benda viðskiptavinum sem eiga rétt á þessum peningum að leita í allar aðrar áttir en til Ferðamálstofu sjálfrar, sem á skv. lögum að losa þennan pening til neytenda.“

Hvetja forsvarsmenn Tango Travel Ferðamálastofu til að sýna leiðtogahæfni á þessum erfiðu tímum fyrir margar ferðaskrifstofur og stíga fram með lausnir í stað þess að flækja málin og búa til vandamál.

„Eigendur ferðaskrifstofa hafa nú þegar þurft að grípa til uppsagna á starfsfólki, þurft að veðsetja heimilin sín og taka önnur lán til að standa undir þessu fjárhagslega áfalli. Þetta er ekki eðlileg staða og ekki réttlát staða á nokkurn hátt. Ferðamálastofa hefur öll verkfæri sem þau þurfa til þess að standa sig miklu betur og getur innan lagarammans bæði virkjað tryggingar fyrir viðskiptavini Tango Travel og það sem væri enn betra, veitt lán úr sjóðnum til að dreifa úr áfallinu, greiða strax til neytenda og þannig varið hagsmuni sjóðsins með því að eiga góðar líkur á að fá peninginn aftur inn frekar en að missa hann út endanlega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×