Íslenski boltinn

Gísli semur við Skaga­menn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gísli Eyjólfsson var öflugur hjá liði Breiðabliks en spilar nú í fyrsta sinn fyrir annað félag í efstu deild.
Gísli Eyjólfsson var öflugur hjá liði Breiðabliks en spilar nú í fyrsta sinn fyrir annað félag í efstu deild. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

ÍA barst hvalreki fyrir átökin í Bestu deild karla á næsta ári þar sem Gísli Eyjólfsson skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í dag.

Gísli er 31 árs miðjumaður sem hefur leikið með Halmstad í Svíþjóð undanfarin tvö ár en hafði fyrir það leikið nánast allan sinn feril með uppeldisfélaginu Breiðabliki. Skagamenn greina frá skiptunum á samfélagsmiðlum félagsins.

Gísli átti ár eftir af samningi sínum í Svíþjóð en virðist hafa fengið sig lausan frá félaginu þar sem fram kemur í yfirlýsingu ÍA að hann komi frítt til félagsins.

Gísli var lykilmaður í liði Breiðabliks, þar á meðal liðinu sem varð Íslandsmeistari árið 2022, áður en hann hélt til Svíþjóðar í fyrra.

Auk Breiðabliks hefur Gísli spilað sem lánsmaður hjá Augnabliki, Haukum og Víkingi Ólafsvík sem ungur maður og þá spilaði hann um stutt skeið með Mjallby í Svíþjóð árið 2019.

Kærasta Gísla er af Akranesi og munu þau koma sér fyrir á Skaganum. Um er að ræða mikinn liðsstyrk fyrir Skagalið sem rétt bjargaði sér frá falli með ótrúlegum lokaspretti á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×