Skoðun

Ó­venju­legt fólk

Helgi Brynjarsson skrifar

Í fyrradag kynnti ríkisstjórnin fyrsta „húsnæðispakka“ sinn með pompi og prakt í Fram heimilinu í Úlfarsárdal. Í pakkanum kennir ýmissa grasa og má þar meðal annars finna nokkrar afbragðs hugmyndir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir en hafa hingað til ekki fengið hljómgrunn innan ríkisstjórnarflokkana, líkt og að séreignarsparnaðarleiðin sem flokkurinn hefur lengi haldið á lofti verði fest í sessi, breytingar á byggingarreglugerð og skilvirkara eftirlit og því ber að fagna.

Fastir liðir eins og venjulega

Þrátt fyrir þessar jákvæðu aðgerðir er sá galli á gjöf ríkisstjórnarinnar, líkt og svo oft áður, að pakkinn inniheldur einnig umtalsverðar skattahækkanir. Skattahækkanir virðast enda vera svar ríkisstjórnarinnar við öllum áskorunum. Stefnir ríkisstjórnin að því að m.a. hækka skatt á söluhagnað íbúða og auk þess heimila sveitarfélögum að leggja á aukin fasteignagjöld á auðar byggingalóðir. Verst er þó hugmyndin um að auka skattheimtu á leigutekjur um 50%, sem er stórmerkilegt plan, sérstaklega þegar yfirlýst markmið húsnæðispakkans er m.a. að bæta stöðu leigjanda. Fyrirséð er að skattahækkunin muni einfaldlega leiða til hærra leiguverðs enda viðbúið að leigusalar varpi skattahækkuninni beint yfir í leiguverðið. Ríkisstjórnin virðist fullkomlega ómeðvituð um að skattar hafa áhrif á hegðun.

Afbrigðilega fólkið

Í kosningabaráttunni seinasta haust lofaði Samfylkingin því að hún myndi ekki hækka skatta á „vinnandi fólk“, sem hljómaði óneitanlega fremur undarlega, enda má þá gagnálykta að skattar verði hækkaðir á atvinnulausa, öryrkja, börn og aðra þá sem ekki vinna. Eftir kosningar drógu þau hins vegar aðeins í land en ítrekuðu þó að skattar yrðu ekki hækkaðir á „venjulegt fólk“.

Þau orð fengu undirritaðan til að velta fyrir sér hvaða fólk er venjulegt og hvaða fólk er óvenjulegt. Fyrir hinn almenna leikmann er ekki auðvelt að átta sig á því en með því að fylgjast með skattahækkunum ríkisstjórnarinnar má í það minnsta beita útilokunaraðferðinni og álykta um þá sem koma til greina sem venjulegt fólk. Nú þegar hafa verið boðaðar skattahækkanir á þá sem leigja út íbúðarhúsnæði eins og áður segir, en einnig einstaklinga í sjálfstæðum atvinnurekstri (áform um að loka meintu „ehf. gati“), hjón (afnám samsköttunar), eigendur ökutækja (ýmsar skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti), þá sem neyta nikótíns (aukin skattheimta á nikótínvörur) og alla þá sem heimsækja náttúruperlur landsins (innviðagjald á ferðamannastaði). Sem sagt, það er svo gott sem eina leiðin til þess að teljast til „venjulega“ fólksins að vera einstæðingur sem ekki á bíl eða fasteign, neytir ekki nikótíns, starfar ekki sjálfstætt og fer helst ekki út fyrir borgarmörkin.

Þeir sem eru svo óheppnir að tikka í eitthvað af ofangreindum boxum falla hins vegar í flokk óvenjulegra Íslendinga sem mega eiga von á frekari skattahækkunum á næstu misserum. Þó grunar mig að þeir hinir sömu hafi ekki áttað sig á því hversu afbrigðilegir þeir voru þegar gengið var að kjörkössunum í fyrra, og jafnvel talið sig tilheyra venjulega fólkinu. Annað hefur hins vegar komið á daginn.

Höfundur er óvenjulegur lögfræðingur og starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Sjá meira


×