Viðskipti innlent

„Það verða fjölda­gjald­þrot“

Samúel Karl Ólason skrifar
Már Wolfang Mixa og Páll Pálsson voru ekki jafn jákvæðir í Sprengisandi og myndin gefur til kynna.
Már Wolfang Mixa og Páll Pálsson voru ekki jafn jákvæðir í Sprengisandi og myndin gefur til kynna. Bylgjan

Útlitið er dökkt á húsnæðismarkaði eftir vaxtadóminn svokallaða. Það segja þeir Páll Pálsson, fasteignasali, og Már Wolfang Mixa, dósent við Háskóla Íslands, sem voru í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar ræddu þeir vaxtadóminn og áhrif hans á fasteignamarkaðinn, húsnæðisverð og lánskjör almennings.

„Þetta getur verið blessun í dulargervi,“ sagði Páll. Hann sagði dóminn geta verið upphafið af því að verðtryggðu lánin hverfi og það geti sömuleiðis verið jákvætt eða neikvætt. Aðallega neikvætt samt.

Páll sagði að eftir að hafa verið í samskiptum við þá banka sem hann starfi með sjái hann fyrir sér slæma sviðsmynd.

Sjá einnig: Telur neyt­endur hafa unnið pyr­rosar­sigur í vaxta­málinu

Hann sagði að í fyrra hafi nærri því sjötíu prósent allra nýrra lána verið verðtryggð og á þessu ári sé hlutfallið tæplega sextíu prósent. Ef að samdráttur á nýjum lánum og nýjum kaupsamningum yrði í einhverju samhengi við þessi hlutföll myndi það hafa mjög neikvæð áhrif.

„Nú bara verð ég pínu dramatískur, kannski neikvæður, ég veit það ekki,“ sagði Páll. Þá sagði hann að fjöldagjaldþrot myndi eiga sér stað í byggingabransanum, bygging nýrra íbúða yrði stöðvuð og það myndi hafa gífurlega mikil afleidd áhrif á byggingavöruverslanir, arkitekta og ýmsa aðra geira.

Margir myndu missa vinnuna og það myndi hafa bein áhrif inn í bankakerfið í formi vanskila og gjaldþrota.

„Þetta mun hafa gríðarleg áhrif.“

Kristján Kristjánsson, þáttastjórnandi, spurði hvort forsendur fyrir þessari slæmu sviðsmynd væru þær að bankarnir væru hættir að veita verðtryggð lán nema til fyrstu kaupenda.

„Ef þú kaupir 65 milljóna króna íbúð og ætlar að biðja um áttatíu milljóna króna lán, miðað við forsendurnar á þessu „verðtryggða“ láni frá Landsbankanum, þarftu að hafa 1,7, 1,8 milljónir í laun til að standast það greiðslumat,“ sagði Páll.

„Þannig að þetta er ekki verðtryggt lán. Þetta er ekki vara sem raunverulega er í boði.

Páll sagðist ekki þekkja neinn sem væri að kaupa sér fyrstu íbúð, þar sem meðalaldurinn væri kringum þrítugt, sem væri með svona tekjur. Hann sagði hægt að fyrirbyggja þetta enda væri vandamálið manngert.

Hann vissi til þess að verið væri að leita lausna.

Í engu stuði fyrir jákvæðni

Þegar Páll lauk máli sínu bað hann Má um að vera jákvæðan, sem sagðist í engu stuði til þess. Hann sagðist vilja benda á að í nýjasta útspili Landsbankans væri búið að lækka líftíma lána úr 25 árum í tuttugu og eingöngu væru jafnar afborganir í boði.

Hann sagðist hafa sett upp reiknidæmi sem sýndi að aukning á greiðslubyrði milli tuttugu og fimm ára lána og tuttugu ára væri rúmar fjörutíu þúsund krónur.

„Það munar um minna fyrir mörg íslensk heimili.“

Þá sagði hann muninn á því að vera með 25 ára jafngreiðslulán og tuttugu ára lán með jöfnum afborgunum væri 111 þúsund krónur á mánuði.

„Þannig að kröfurnar á fyrsta árinu til að standast greiðslubyrði hafa snar aukist við þetta.“

Már gagnrýndi einnig umræðu um meiri fyrirsjáanleika í vaxtakjörum.

„Ég spyr. Er það einhver fyrirsjáanleiki að það sé einhver fimm manna nefnd í einhverri stofnun á Íslandi sem ákveði vaxtakjör þín?“

Hann sagði þau vaxtakjör taka mið af vikubundnum innlánum fjármálastofnana. Þar væru augljóslega skammtímavextir látnir gilda yfir langtímalán.

„Talandi um séríslensk fyrirbrigði. Í mínum huga er þetta algjörlega galið.“

Hann sagði stefna í miklu meira flökt á vaxtakjörum íslenskra heimila en hjá íslenska ríkinu. Mikil óvissa ríkti á markaði húsnæðislána og henni þyrfti að eyða.

Hlusta má á frekari samræður þeirra Más og Páls við Kristján í spilaranum hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×