Viðskipti innlent

Síminn kaupir Motus og Pei

Eiður Þór Árnason skrifar
Síminn hyggst efla fjártæknirekstur sinn.
Síminn hyggst efla fjártæknirekstur sinn. Vísir

Síminn hf. hefur undirritað samning um kaup á öllu hlutafé í Greiðslumiðlun Íslands ehf. (GMÍ). Félagið á og rekur greiðslulausnina Pei og innheimtufyrirtækið Motus.

Heildarvirði GMÍ í viðskiptunum er sagt nema 3.500 milljónum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum til Kauphallar. Kaupin verði fjármögnuð með handbæru fé en endanlegt kaupverð til greiðslu taki meðal annars mið af stöðu nettó vaxtaberandi skulda og veltufjármuna á viðmiðunardegi uppgjörs. 

Viðskiptin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins en Síminn rekur greiðslumiðlunar- og útlánaþjónustuna Síminn Pay. Seljendur GMÍ eru Landsbankinn og félög sem eru að mestu í eigu Alfa Framtaks.

Lánasafn Símans stækki um milljarð króna

Verði af viðskiptunum áætlar Síminn að á ársgrundvelli aukist tekjur Símans um ríflega 2.600 milljónir króna, EBITDA um yfir 500 milljónir króna og lánasafn félagsins stækki um að lágmarki 1.000 milljónir króna.

„GMÍ er öflug samstæða á sviði kröfuþjónustu, innheimtu og greiðsluþjónustu. Starfsemin er rótgróin á markaði og býr að traustum tæknilegum grunni, reynslumiklu starfsfólki og þjónustar um 1.600 viðskiptavini á fyrirtækjamarkaði auk fjölmargra viðskiptavina Pei á lánamarkaði. Starfsmenn eru um 75 talsins,“ segir í tilkynningu Símans til Kauphallar.

Með kaupunum styrki Síminn sig enn frekar á sviði fjártækni sem sé ört vaxandi stoð í rekstrinum.

Samhliða frágangi viðskiptanna hyggst Síminn áfram vinna að breyttu skipulagi samstæðunnar. Felst það meðal annars í því að færa fjarskipta- og miðlarekstur félagsins í nýtt dótturfélag. Markmið breytinganna er sagt að búa samstæðuna undir frekari vöxt.

Fréttin er í vinnslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×