Fótbolti

Að­eins tuttugu sæti enn laus á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Sadio Mané er búinn að koma Senegal inn á HM.
Sadio Mané er búinn að koma Senegal inn á HM. Getty/Cem Ozdel

Sex þjóðir bættust í kvöld í hóp þeirra sem tryggt hafa sér sæti á HM karla í fótbolta sem fram fer í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada næsta sumar. Aðeins tuttugu sæti eru enn laus á þessu stærsta heimsmeistaramóti sögunnar.

Eftir úrslit kvöldsins eru alls 28 þjóðir öruggar inn á HM sem nú verður í fyrsta sinn með 48 liðum í stað 32 á síðustu mótum.

Í kvöld bættist England í hópinn með stórsigri sínum gegn Lettum en einnig bættust við tvö lið frá Asíu og þrjú frá Afríku.

Síðustu og verðandi gestgjafar verða með

Katarar, gestgjafar síðasta HM, tryggðu sér farseðilinn til Ameríku með 2-1 sigri gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag. Boualem Khoukhi og Pedro MIguel skoruðu mörk Katar sem þar með vann þriggja liða riðil sinn.

Sádi-Arabía, gestgjafi HM 2034, vann einnig sinn þriggja liða riðil, með markalausu jafntefli við Írak á heimavelli, og kom sér inn á HM.

Írak og Sameinuðu arabísku furstadæmin geta enn komist á HM en þau mætast í umspilsleikjum í nóvember og mun sigurliðið svo fara í umspil við lið úr öðrum heimsálfum í mars.

Mané og Diallo skoruðu og komust inn á HM

Fílabeinsströndin, Senegal og Suður-Afríka tryggðu sig svo áfram úr undankeppninni í Afríku. Sadio Mané skoraði tvö marka Senegal í 4-0 sigri gegn Máritaníu í dag sem dugði til að enda fyrir ofan Kongó í baráttunni um efsta sæti B-riðils.

Fílabeinsströndin vann Kenía 3-0, þar sem Manchester United-maðurinn Amad Diallo skoraði lokamarkið, og endaði stigi fyrir ofan Gabon á toppi F-riðils. Suður-Afríka vann svo Rúanda og endaði stigi fyrir ofan Nígeríu og Benín í C-riðli.

Nígería, Gabon, Kamerún og Kongó munu svo í næsta mánuði berjast um eitt laust sæti í umspilinu við lið úr öðrum heimsálfum í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×