Erlent

Segist breyttur maður og biðlar til dómarans

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Combs verður gerð refsing í dag.
Combs verður gerð refsing í dag. AP

Tónlistar- og athafnamaðurinn Sean Combs segist breyttur maður, fullur iðrunar og eftirsjár. Combs, sem er betur þekktur sem Puff Daddy eða Diddy, verður gerð refsing í dag.

Diddy, sem var fundinn sekur um vændi og á yfir höfði sér 20 ára fangelsi, segir í bréfi til dómarans í málinu að fangelsisvistin hafi breytt honum og hann iðrist alls þess sársauka sem hann hafi valdið öðrum.

Varðandi árás sína á þáverandi kærustu, tónlistarkonuna Cassie Venture, segist hann miður sín. „Ég bókstaflega missti vitið,“ segir hann um atvikið, sem átti sér stað á hóteli og náðist á öryggismyndavélar. „Heimilisofbeldið sem ég beitti er þung byrði sem ég mun alltaf bera.“

Þá biður hann aðra konu sem bar vitni gegn honum, en var aðeins nefnd „Jane“ í fréttaflutningi, afsökunar og segist hafa tapað sér í eiturlyfjum og ofgnótt. „Ég fór villu vegar,“ segir Diddy. „Fall mitt má rekja til sjálfselsku minnar.“

Segist hann hafa verið brotinn til mergjar. Hann sé nú edrú í fyrsta sinn í 25 ár og breyttur maður. „Gamli ég dó í fangelsinu og ný útgáfa af mér endurfæddist,“ segir Diddy í bréfinu.

Hann segir það mögulega freista dómarans að gera hann að dæmisögu fyrir aðra með því að dæma hann harkalega, en hvetur hann í staðinn til að gera hann að dæmisögu um það hvað menn geta gert þegar þeir fá annað tækifæri.

Í bréfinu til dómarans biðlar Combs til hans um að sýna sér miskun, barnanna sinna vegna.Getty/Eduardo Munoz

Fórnarlömb tónlistarmannsins hafa hvatt dómarann til að gefa honum þungan dóm, meðal annars Ventura. Segist hún óttast hefndaraðgerðir ef hann verður látinn laus.

„Hann hefur engan áhuga á því að breytast eða verða betri maður,“ segir hún. „Hann verður alltaf sami grimmi, valdagráðugi, svikuli maðurinn sem hann er.“

Combs mun taka til máls þegar hann verður dæmdur í dag og þá hyggjast verjendur hans sýna fimmtán mínútna myndskeið. Ekki er vitað hvað myndskeiðið sýnir. 

Saksóknarar segja tónlistarmanninn ekki hafa sýnt neina raunverulega iðrun og benda á hvernig hann hafi freistað þess að túlka ofbeldi sitt sem afleiðingu „eitraðra sambanda“ þar sem báðir áttu sök.

„En það er ekkert gagnkvæmt í sambandi þar sem önnur manneskjan hefur allt vald og hin er marin og blóðug,“ segja þeir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×