Erlent

Vilja Diddy í ellefu ára fangelsi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tónlistarmaðurinn mun sæta fangelsisvist en hversu löng hún verður er enn óvíst, þar til á föstudag.
Tónlistarmaðurinn mun sæta fangelsisvist en hversu löng hún verður er enn óvíst, þar til á föstudag. Frazer Harrison/Getty Images

Saksóknarar í máli bandaríska tónlistarmannsins Sean „Diddy“ Combs hafa farið fram á að honum verði gert að sæta ellefu ára fangelsisvist. Tónlistarmaðurinn hefur verið sakfelldur í tveimur ákæruliðum af fimm og mun dómari kveða upp refsingu næstkomandi föstudag 3. október.

Combs var í september á síðasta ári ákærður í fimm ákæruliðum fyrir mansal, skipulagða glæpastarfsemi og fólksflutninga í tengslum við vændisstarfsemi. Þann 2. júlí var Diddy sýknaður í þremur ákæruliðum en sakfelldur í tveimur liðum fyrir að flytja fólk til vændiskaupenda.

Síðustu fréttir af máli hans bárust í ágúst en þá hafnaði dómari því að verða við kröfu tónlistarmannsins um að verða sleppt gegn fimmtíu milljóna dala tryggingu. Hinn 55 ára gamli Combs hefur dúsað í fangelsi allt frá því hann var ákærður í fyrra.

Segja Combs ekki sjá eftir brotum sínum

Í bréfi sínu til dómara segja saksóknarar að sambærileg brot líkt og þau sem tónlistarmaðurinn hafi verið kærður fyrir hafi leitt til tíu ára fangelsisvistar. Tónlistarmaðurinn hafi beitt ógnarstjórnun og ofbeldi.

Þeir segja að hann hafi viðurkennt ábyrgð sína fyrir dómi en haldi því nú fram að fórnarlömb hans beri sína ábyrgð. Ljóst sé því að hann sjái ekki eftir brotum sínum en vilji fórnarlambsvæða sjálfan sig.

Verjendur hans hafa farið fram á að hann siti ekki lengur en í fjórtán mánuði í fangelsi. Þeir segja hann þegar hafa þurft að dúsa inni í þrettán mánuði og fullyrða að hann hafi breyst mikið þar sem hann situr nú inni í fangelsi í Brooklyn. Hann sé þar á sjálfsvígsvakt og hafi lært að taka á málum af hinni stökustu ró. Hann átti sig á því að brot hans hafi að megindráttum verið framin vegna eiturlyfjafíknar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×