Innlent

Lítur svo á að hann njóti ekki trausts og hefur beðist lausnar

Atli Ísleifsson skrifar
Þorsteinn Sigurðsson hefur stýrt Hafró frá árinu 2021.
Þorsteinn Sigurðsson hefur stýrt Hafró frá árinu 2021. Vísir/Sigurjón

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, gekk á fund atvinnuráðherra í morgun þar sem hann óskaði eftir lausn frá embætti. Þetta gerði hann í kjölfar ákvörðunar Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra að auglýsa stöðu forstjóra. Þorsteinn segir ljóst að hann njóti ekki trausts ráðherra til að gegna stöðunni áfram og því sé betra að annar taki við sem fyrst.

Þetta segir Þorsteinn í samtali við fréttastofu en greint var frá því á heimasíðu ráðuneytisins í dag að ráðherra hefði ákveðið að auglýsa laust til umsóknar embætti forstjóra Hafrannsóknastofnunar. Auglýsing þess efnis muni birtast á næstum vikum.

Þorsteinn segir að eftir að honum hafi verið tilkynnt um ákvörðun ráðherrans hafi hann óskað eftir fundi með ráðherra þar sem hann óskaði eftir lausn frá störfum.. „Mér var orðið ljóst að ég nyti ekki trausts ráðherra til að gegna embættinu áfram. Ég hef því beðist lausnar frá embætti forstjóra. Það er nú í vinnslu.“

Á vef ráðuneytisins segir að núverandi forstjóri, Þorsteinn, hafi gegnt embættinu frá 1. apríl 2021 og renni skipunartími hans út 31. mars næstkomandi.

„Atvinnuvegaráðuneytið hefur á undanförnum misserum unnið að mati á stöðu og framtíð Hafrannsóknastofnunar og hafrannsókna á Íslandi. Frumniðurstöður þeirrar athugunar benda til þess að þörf sé á að ráðast í heildstæða stefnumótunarvinnu til að efla stofnunina til frambúðar, bæði með tilliti til lagaumgjarðar, rekstrar og forgangsröðunar verkefna.

Slíkum breytingum fylgja óhjákvæmilega margvíslegar breytingar á starfsemi og skipulagi stofnunarinnar. Í ljósi framangreinds er það mat ráðherra að rétt sé að auglýsa embættið laust til umsóknar,“ segir í tilkynningunni. 

Þorsteinn segir í samtali við fréttastofu að hann muni ekki sækja um stöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×