Handbolti

KA/Þór með fullt hús stiga

Ágúst Orri Arnarson skrifar
KA/Þór hefur farið frábærlega af stað á tímabilinu.
KA/Þór hefur farið frábærlega af stað á tímabilinu. vísir / hulda margrét

Sameiginlegt lið KA og Þórs er enn með fullt hús stiga í Olís deild kvenna í handbolta eftir að hafa sótt 27-25 sigur gegn Selfossi í þriðju umferðinni í kvöld.

Heimakonur Selfoss börðust hetjulega til baka í seinni hálfleik eftir að hafa lent fimm mörkum undir, 15-20, og leiddu leikinn 25-23 þegar aðeins sjö mínútur voru eftir.

Þá skelltu gestirnir frá Akureyri algjörlega í lás og lokuðu leiknum með fjögurra marka áhlaupi án þess að fá á sig mark. Lokatölur á Selfossi 25-27 fyrir KA/Þór.

Öfugt við KA/Þór hefur Selfoss því tapað fyrstu þremur leikjum tímabilsins.

Susanne Denise Pettersen var markahæst hjá KA/Þór með fimm mörk auk sjö stoðsendinga en Bergrós Ásta Guðmundsdóttir, Anna Þyrí Halldórsdóttir og Trude Blestrud Hakonsen fylgdu henni eftir, allar með fjögur mörk.

Selfyssingarnir Hulda Dís Þrastardóttir og Eva Lind Tyrfingsdóttir voru hins vegar markahæstur í leiknum með sex mörk hver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×