Innlent

Ætlar að fækka sveitar­fé­lögum fyrir kosningar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Eyjólfur Ármannssson innviðaráðherra hefur birt drög að ítarlegu frumvarpi í samráðsgátt.
Eyjólfur Ármannssson innviðaráðherra hefur birt drög að ítarlegu frumvarpi í samráðsgátt. Vísir/Anton

Innviðaráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi með tillögum að víðtækum breytingum á sveitastjórnarlögum. Meðal tillaga er lögfesting á 250 íbúa lágmarki sveitarfélaga og er stefnt að sameiningu fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Átta sveitarfélög falla undir lágmarkið.

Drög að frumvarpi með tillögum að víðtækum breytingum á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Frestur til að skila umsögn er til og með 13. október 2025.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á sveitarstjórnarlögum sem varða stjórnsýslu sveitarfélaga, íbúasamráð, frumkvæði ráðherra að sameiningum sveitarfélaga, samvinnu sveitarfélaga, fjármál og reikningsskil sveitarfélaga, starfshætti kjörinna fulltrúa og eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga.

Meginmarkmið lagabreytinganna sé að styrkja stjórnsýslu sveitarfélaga og efla sveitarstjórnarstigið.

Ráðherra eigi frumkvæði að sameiningu

Lagðar er til fjölmargar breytingar, svo sem á reglum sem gilda um fundi sveitarstjórna, málsmeðferð við töku ákvarðana um hæfi, rétt kjörinna fulltrúa til aðgangs að gögnum og framsal ráðningar- og fullnaðarafgreiðsluvalds til nefnda, ráða og starfsmanna sveitarfélaga.

Þá eru tillögur um að ráðherra skuli eiga frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga sem eru undir 250 nema sérstakar aðstæður mæla því í mót og að sameining verði lokið við sveitarstjórnarkosningar 2026.

Samkvæmt gögnum Hagstofunnar eru átta sveitarfélög með færri en 250 íbúa, þau eru: Reykhólahreppur mwð 246 íbúa, Súðavíkurhreppur með 209, Eyja- og Miklaholtshreppur með 124, Kaldrananeshreppur með 115, Fljótsdalshreppur með 90, Skorradalshreppur með 65 (en þegar hefur verið samþykkt að hann sameinist Bláskógabyggð), Árneshreppur með 60 og Tjörneshreppur með 53 íbúa.

Lagt er til að lögfest verði ítarlegri ákvæði en nú gilda um stefnumörkun í fjármálum sveitarfélaga. Einnig eru lagðar til breytingar á eftilitsheimild ráðherra með sveitarfélögum og heimildir ráðherra afmarkaðar með skýrari hætti en nú.

Frumvarpið felur einnig í sér breytingar sem stefna að því að auka áhrif byggðalaga innan sveitarfélaga með stofnun heimastjórnar, nefndar sem fari með sérstakar valdheimildir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×