Innlent

Gagn­rýnir hæstu ríkisút­gjöld sögunnar í fjár­laga­frum­varpi

Kjartan Kjartansson skrifar
Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir (t.v.) og Sigmundur Ernir Rúnarsson (t.h.) tókust á um fjárlagafrumvarpið í Bítínu á Bylgjunni í morgun.
Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir (t.v.) og Sigmundur Ernir Rúnarsson (t.h.) tókust á um fjárlagafrumvarpið í Bítínu á Bylgjunni í morgun. Vísir

Þingkona Miðflokksins gagnrýnir aðhaldsleysi í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þar sem gert sér ráð fyrir hæstu ríkisútgjöldum sem sögur fara af. Stjórnarþingmaður segir stjórnina þurfa að greiða upp innviðaskuld eftir „pólitíska leti“ forvera hennar.

Fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins í gær. Þar er gert ráð fyrir fimmtán milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs á næsta ári, ellefu milljörðum minna en áður var reiknað með. Ráðherrann lýsti frumvarpinu sem ákaflega aðhaldssömu. 

Þessu var Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, þingmaður Miðflokksins og fulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, ósammála í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar fullyrti hún að ríkisútgjöld hefðu aldrei verið hærri, jafnvel hærri en á tímum kórónuveirufaraldursins. Ríkisstjórnin hefði ekki einu sinni treyst sér til þess að lækka útgjöld um fimmtán milljarða til þess að ná hallalausum fjárlögum.

Rakti hún aukin útgjöld ríkisins undanfarin ár til útlendinga en það væru mál sem Miðflokkurinn hefði „aldrei mátt ræða“. Sagði hún ráðuneyti heilbrigðis- og menntamála ekki hafa getað svarað sér hver kostnaður vegna þjónustu við útlendinga væri en sjálf skyldi hún ekki hvernig væri hægt að gera áætlanir án þess að vita það.

„Við verðum að taka á þessum málaflokki ef við ætlum að ná stjórn á útgjöldum ríkisstjórn, stjórn á útlendingamálum og ná niður vöxtum og verðbólgu, þá verður það að gerast,“ sagði Nanna Margrét og vísaði til útlendingamála sem hún fullyrti að síðasta ríkisstjórn hefði ekki viljað vita neitt um.

Skuld sem þurfi að greiða

Félagi Nönnu Margrétar í efnahags- og viðskiptanefnd, Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, benti aftur á móti á að stóra breytan síðustu tíu árin væri að íbúum landsins hefði fjölgað. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru íbúar á landinu rúmlega 63 þúsund fleiri í upphafi þessa árs en árið 2015.

Fjárlagafrumvarpið bæri þvert á móti vitni um stöðugleika og aðhald þar sem reynt væri að ná niður vöxtum og verðbólgu. Þá væri ríkisstjórnin að vinna upp innviðaskuld sem hefði skapast „eftir pólitíska leti síðustu ríkisstjórnar sem gat ekki sakri pólitískrar sundurleitni tekið á sterkum og stórum málum og lét mál drabbast niður.“

Þannig ætti nú að sækja fram á sviðum sem hefðu verið vanrækt, þar á meðal í heilbrigðismálum, löggæslu, vegamálum, gegn fíknivanda og taka til í málefnum öryrkja.

„Það finnst mér einfaldlega vera skuld sem við þurfum að gjalda,“ sagði Sigmundur Ernir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×