Innlent

Móðirin á Edition gengur laus

Árni Sæberg skrifar
Tilkynnt var um andlát fólksins á Edition-hótelinu um miðjan júní.
Tilkynnt var um andlát fólksins á Edition-hótelinu um miðjan júní. Vísir/Vilhelm

Kona sem grunuð er um að hafa banað eiginmanni sínum og dóttur á Edition-hótelinu í júní getur nú um frjálst höfuð strokið, eftir að hafa verið sleppt úr gæsluvarðhaldi í dag. Hún hefur þess í stað verið úrskurðuð í farbann.

Konan var handtekin laugardaginn 14. júní eftir að starfsmaður Edition hótelsins í Reykjavík kom að henni særðri á hótelherbergi fjölskyldunnar. Eiginmaður hennar og dóttir voru úrskurðuð látin á vettvangi. Konan er frönsk en búsett á Írlandi, líkt og hin látnu.

Hún hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan 15. júní en hefur nú verið sleppt úr haldi og úrskurðuð í tólf vikna farbann, eða til 27. nóvember, að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar málsins.

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni þess efnis seguir að áður hafi Héraðsdómur Reykjavíkur fallist á fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhaldskröfu embættisins yfir konunni í lok ágúst, fram yfir meginregluna um hámarks tólf vikna gæsluvarðhald, en Landsréttur hafi stytt gæsluvarðhaldið til 6. september og hefði það því runnið út næstkomandi laugardag. 

Vegna hafi komið til kröfu um farbann, sem nú hafi verið samþykkt líkt og áður er getið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×