Fótbolti

Blikar fá heima­leik í Evrópu tveimur dögum fyrir loka­um­ferð Bestu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Örn Margeirsson og félagar í Breiðabliki hafa nóg að gera í vetur.
Viktor Örn Margeirsson og félagar í Breiðabliki hafa nóg að gera í vetur. Vísir/Anton Brink

Knattspyrnusamband Evrópu hefur nú sett saman og staðfest leikjadagatal Sambandsdeildarinnar þar sem Íslendingar eiga einn fulltrúa.

Blikar tryggðu sér sæti í aðalhluta Sambandsdeildarinnar í annað skiptið á þremur árum.

Breiðablik fékk að vita um mótherja sína á föstudaginn og í gær var ljóst hvernig liðið spilar við hverja. UEFA staðfestir hér leikjaplanið.

Blikar byrja á leik í Sviss og enda á útileik í Frakklandi sex dögum fyrir jól.

Breiðablik spilar þrjá heimaleiki og þrjá útileiki frá 2. október til 18. desember.

Úrslitakeppni Bestu deildar karla hefst 21. september og lýkur 25. október. Inn í hana kemur tveggja vikna landsleikhlé frá 5. til 19. október.

Blikar eiga leiki nokkrum dögum fyrir og eftir útileik í Sviss. Þeir eiga líka að spila spila heimaleik tveimur dögum fyrir lokaumferð Bestu deildarinnar.

Það má búast við því að það gæti búið til einhver vandamál fari svo að Blikar eigi þá enn möguleika á að tryggja sér tititlinn eða Evrópusæti. Umferðin er nú á laugardegi en yrði þá eflaust af einhverjum hluta færð yfir á sunnudaginn.

Fjórir af sex leikjum Blika í Sambandsdeildarinnar fara fram eftir að Íslandsmótinu lýkur.

  • Leikir Breiðabliks
  • 2. október
  • FC Lausanne-Sport - Breiðablik
  • 23. október
  • Breiðablik - KuPS Kuopio
  • 6. nóvember
  • FC Shakhtar Donetsk - Breiðablik
  • 27. nóvember
  • Breiðablik - Samsunspor FC
  • 11. desember
  • Breiðablik - Shamrock Rovers FC
  • 18. desember
  • Strasbourg - Breiðablik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×