Innlent

Hildur Sverris­dóttir hættir sem for­maður þing­flokksins

Agnar Már Másson skrifar
Hildur Sverrisdóttir hefur verið þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins síðan í nóvember 2023, þegar Óli Björn Kára­son hætti.
Hildur Sverrisdóttir hefur verið þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins síðan í nóvember 2023, þegar Óli Björn Kára­son hætti. Vísir/Ívar Fannar

Hildur Sverrisdóttir hefur sagt af sér sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Segist hún gera þetta til að forðast átök innan flokksins. Formaður Sjálfstæðisflokksins muni tilnefna annan þingmann sem formann þingflokks.

Hildur greinir frá þessu á Facebook og segir að Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, muni leggja til nýjan þingflokksformann eins og til hafi staðið. 

Aftur á móti kveðst hún hafa fengið hvatningar frá þingmönnum um að halda áfram og kveðst þakklát fyrir það.

„[Ég] er þeirrar skoðunar að engum sé greiði gerður með því að etja þingflokknum út í átök á borð við slíka atkvæðagreiðslu,“ skrifar Hildur.  

„Ég hef því ákveðið að hætta sem formaður þingflokksins áður en til hennar kemur.“

Segir hún það hafa mikinn heiður að gegna hlutverki þingflokksformanns síðustu tvö ár en hún tók við þegar Óli Björn Kárason sagði af sér sem þingflokksformaður í nóvember 2023. 

„Verkefnin voru oft krefjandi og sérstaklega á nýliðnum átakavetri en ég geng stolt frá mínum verkum og veit að þau vann ég öll af heilindum. Ég er aldeilis ekki hætt í þingstörfunum og hlakka til að vinna áfram landinu og flokknum mínum til heilla.“

Frétt verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×