Innlent

Minntust þess ekki að hafa brennt tösku fyrir Stefán Blackburn

Jón Þór Stefánsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Stefán Blackburn er einn þriggja sakborninga sem ákærður er fyrir manndráp, frelsissviptingu og rán í Gufunesmálinu.
Stefán Blackburn er einn þriggja sakborninga sem ákærður er fyrir manndráp, frelsissviptingu og rán í Gufunesmálinu. Vísir/Anton Brink

Karl og kona sem eru talin hafa brennt íþróttatösku sem innihélt sönnunargögn í Gufunesmálinu svokallaða báru vitni við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Suðurlands í dag. Svo virðist sem grunur sé um að þau hafi tekið við töskunni frá Stefáni Blackburn, einum sakborningi málsins.

Fimm eru ákærð í málinu. Það eru þeir Stefán, sem er 33 ára, Lúkas Geir Ingvarsson 22 ára og Matthías Björn Erlingsson 19 ára sem eru ákærðir fyrir manndráp, frelsissviptingu og rán. Tvö til viðbótar eru ákærð fyrir hlutdeild í málinu, auk fjárdráttar.

Þremenningunum fyrrnefndu er gefið að sök að hafa numið Hjörleif Hauk Guðmundsson, mann á sjötugsaldri, á brott af heimili hans í Þorlákshöfn að kvöldi 10. mars síðastliðinn og beita hann margvíslegu ofbeldi með það að markmiði að hafa af honum fé. Maðurinn sem varð fyrir árásinni fannst illa haldinn í Gufunesi morguninn eftir og lést skömmu síðar.

Umrædd taska var einnig til umfjöllunar í þinhaldi málsins í gær. Fram kom að þegar hún fannst hafi verið búið var að kveikja í henni, en þrátt fyrir það hafi fundist leifar af úlpu með lífsýni úr Lúkasi.

Stefán var spurður hvort hann hafi komið að því að brenna töskuna.

„Ekki svo ég muni. Ég kveikti ekki í henni sjálfur, ef þú meinar það. Ég man ekki eftir að hafa beðið neinn um að kveikja í henni eða rétt einhverjum töskuna.“

Mundi bara eftir annarri tösku

Tvö vitni, karl og kona, voru spurð út í töskuna við aðalmeðferðina í dag.

Brunaleifarnar munu hafa fundist skammt frá heimili konunnar í Reykjavík. Fyrir dómi sagðist hún þó ekki muna hvort hún hefði verið heima hjá sér um það leyti sem atburðir Gufunesmálsins og eftirmálar þess hefðu átt sér stað. Hún hefði dvalið mikið í Hafnarfirði á þeim tíma.

Konan sagðist ekki kannast við að hafa tekið við töskunni frá Stefáni, eða þá brennt hana að hans beiðni. Hún mundi einungis eftir tösku sem hún hefði fengið frá öðrum manni, ótengda þessari.

Sagðist hafa verið í tómu tjóni

Maðurinn gaf skýrslu í gegnum fjarfundabúnað íklæddur Manchester United-treyju. Hann minnti að hann hefði verið með konunni heima hjá henni um þetta leyti, daginn eftir að atburðir Gufunesmálsins áttu sér stað.

Hann sagðist þó muna afar lítið.

„Ég var búinn að vera í tómu tjóni þarna í lengri tíma,“ sagði hann og bætti við að hann væri nýkominn úr meðferð.

„Þetta gæti alveg hafa gerst“

Borinn var undir hann lögregluskýrsla sem hann hafði gefið hjá lögreglu um þennan bruna. Þar sagði hann að þetta kvöld hefðu þau tvö setið heima hjá henni og fengið sér bjór. 

Um eittleytið um nóttina hefði konan tekið svarta og gráa íþróttastöku Í henni hafi verið úlpa, hvít, svört og rauð á litinn, og blóðug föt af Stefáni Blackburn, sem hafi komið með töskuna þarna áður.

Konan hafi farið með honum og töskunni að Tangarbryggju. Þar hafi hún tekið upp bensínbrúsa og kveikt í töskunni.

Maðurinn sagðist ekki muna eftir þessu núna.

„Ertu að segja mér að þú munir þetta ekki?“ spurði Karl Ingi Vilbergsson saksóknari málsins.

„Þetta gæti alveg hafa gerst,“ svaraði hann.

Dómarinn spurði hann þá hvort hann hefði sagt satt í skýrslutöku hjá lögreglu, og hann sagði svo vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×