Veður

„Eins og að vera úti á rúm­sjó“ í Eyjum annað kvöld

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, rýndi í spánna fyrir helgina.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, rýndi í spánna fyrir helgina. Bylgjan/Vísir/Vilhelm

Rigna mun töluvert á Suður- og Vesturlandi annað kvöld og geta hviður farið yfir 25 metra. Frá laugardagsmorgni batnar veðrið og á Norður- og Austurlandi verður sunnangola og mikil hlýindi.

Þetta segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Blika.is, sem ræddi um veðurspána fyrir Verslunarmannahelgina í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni upp úr fjögurleytinu í dag.

Hvernig er nýjasta spáin?

„Þetta er allt búið að vera á dálitlu flakki en samt sem áður hefur meginlínan alveg verið klár í þessu með þessa lægð og skilin sem koma hérna upp að fyrri hluta helgarinnar,“ sagði Einar.

„Ef við skiptum landinu í tvennt og byrjum á Suður- og Vesturlandi þá er næsti sólarhringur bara mjög fínn, svo byrjar að blása um hádegi á morgun, bætir heldur í vindinn og verður hvað hvassast og byrjar að rigna annað kvöld,“ sagði hann.

Það er þessi gula viðvörun?

„Jú, á undan svona skilum þá hvessir rétt á undan þeim. Eins og þetta er núna, svo fremi sem þetta flýti sér ekki enn frekar, verða hviður yfir 25 metrar á sekúndu á nokkrum stöðum á Suður- og Vesturlandinu og hálendinu. Það er svona frá níu-tíu annað kvöld og eitthvað fram yfir miðnætti,“ sagði Einar.

Ökumenn sem ferðast með húsbíla, tjaldvagna eða tengivagna ættu því helst að vera komnir á áfangastað fyrir þann tíma.

Styttir upp á laugardagsmorgun

„Á Eyjum sýnist mér á spá Bliku að þar verði veðrið í hámarki rétt um miðnætti og það alveg sautján-átján metrar á sekúndu. Þetta verður bara eins og að vera úti á rúmsjó en þetta versta stendur ekki lengi,“ sagði Einar.

Úrkoman verður töluverð aðfaranótt laugardags á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum en það verði ekki rigning alla helgina.

„Með þessum skilum byrjar að rigna annað kvöld og rignir fram á nóttina. Svo þegar menn vakna morguninn eftir þá er stytt upp þannig þetta er mest yfir nóttina,“ sagði Einar.

„En þetta þýðir ekki að það sé rigning alla helgina. Þetta er bara með þessum skilum. Svo fara þau yfir Norður- og Austurland um morguninn, það rignir í tvo-þrjá-fjóra klukkutíma á laugardagsmorguninn. Svo tekur við strekkingur úr suðri og þá verða skúraleiðingar á Suður- og Vesturlandi,“ sagði hann.

Gæti náð tuttugu stigum á bestu stöðunum

Á Austur- og Norðurlandi er spáð sól og blíðu um helgina.

„Það er Ungmennalandsmót á Egilsstöðum, mjög stór hátíð og þar er spáð fínasta veðri um helgina að undanskildum þessum laugardagsmorgni þar sem aðeins dembir í tvo-þrjá klukkutíma, ekkert mikið, en síðan er bara þessi sunnangola og hlýindi,“ sagði Einar.

„Hitinn á þessum stöðum gæti orðið fimmtán-nítján stig, jafnvel tuttugu á bestu stöðum, ekki mikið meira en það þó,“ bætti hann við.

Ef tjaldstæði eru skoðuð verði heitast á Lundi í Öxarfirði, Stóra-Sandfelli á Héraði og í Ásbyrgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×