Innlent

Leigu­bíll án verðmerkingar og veitinga­staðir í ó­leyfi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Föstudagskvöld í miðbæ Reykjavíkur. Mynd tengist frétt ekki beint og viðkomandi leigubílar tengjast henni ekki.
Föstudagskvöld í miðbæ Reykjavíkur. Mynd tengist frétt ekki beint og viðkomandi leigubílar tengjast henni ekki. Vísir/Vilhelm

Lögreglumenn urðu varir við að íslenska fánanum var flaggað á fánastöng í miðbænum eftir miðnætti. Þar sem ekki náðist í neinn í húsinu var fáninn tekinn niður af lögreglu. Einnig var ökumaður leigubíls stöðvaður fyrir að vera ekki með sýnilegar verðmerkingar og höfð afskipti af fimm veitingastöðum.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls voru 83 mál bókuð í kerfum lögreglum og gistu sjö fangageymslu í nótt.

Í miðborginni var ýmislegt um að vera. Lögreglan hafði afskipti af fimm veitingastöðum vegna útiveitingaleyfis. Einn staður var án leyfis og fjórir þeirra höfðu farið langt fram yfir opnunartíma útgefins leyfis. „Til skoðunar hjá lögreglu að beita viðurlögum,“ segir í dabókinni.

Einnig var maður handtekinn grunaður um líkamsárás og vörslu fíkniefna í miðbænum. Hann var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Annar maður, sem var í annarlegu ástandi, var handtekinn vegna brots á lögreglusamþykkt og einnig vistaður í fangaklefa þar til unnt væri að ræða við hann. Þá barst lögreglu tilkynning um tvo einstaklinga í annarlegu ástandi á hafnarsvæði en þeir fundust ekki.

Í Hlíðunum var óvelkomnum einstaklingi í annarlegu ástandi vísað út úr hóteli og í sama hverfi barst tilkynning um þjófnað úr matvöruverslun.

Einn ók í veg fyrir lögreglubíl, annar valdur að árekstri

Þó nokkrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum, þar á meðal einn ökumaður hópbifreiðar en hann var látinn laus að lokinni sýnatöku.

Einn ökumaður var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis eftir að hafa ekið í veg fyrir lögreglubíl. Sami ökumaður hafði ekið yfir á rauðu, var ekki í bílbelti og gat ekki framvísað gildum ökuréttindum. 

Annar var ökumaður var handtekinn grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og verið valdur af umferðaróhappi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×