Innlent

Salibuna á sirkustjaldinu og lé­legir lista­menn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í nótt.
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkuð fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt og var meðal annars kölluð til eftir að sást til ungmenna að renna sér niður sirkustjaldið við Háskóla Íslands.

Uppátækið átti sér hins vegar eðlilegar skýringar þar sem í ljós kom að þarna voru starfsmenn á ferð að ganga frá tjaldinu.

Lögreglu barst einnig tilkynning um aðila sem var sagður vera að sprauta sig með vímuefnum inni á almenningssalerni. Var hann búinn að neyta efnanna þegar lögreglu bar að garði og „gekk í burtu í góðu skapi“, eins og segir í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar.

Þar er þess einnig getið að lögreglu hafi ekki þótt mikið til koma þegar hópur pilta tók sig til og málaði á veggi menntaskóla.

„Drengirnir farnir þegar lögregla kom á vettvang en þeir sáust í öryggismyndavélakerfi. Veggirnir ekki flottari fyrir vikið að mati lögreglumanna. Málið í rannsókn,“ segir lögregla.

Lögregla var einnig látin vita eftir að ökumaður bakkaði harkalega á annan við umferðarljós og ók síða í burtu. Sá sem tilkynnti elti bakkarann en sá lagði bifreið sinni og tók svo til fótanna. Málið er í rannsókn.

Einn var handtekinn í miðborginni eftir að hann neitaði að yfirgefa bar, þar sem hann hafði verið með ógnandi tilburði og valdið eignaspjöllum. Var hann verulega ölvaður og greip í lögreglumanna.

Þrír voru handteknir fyrir vímuakstur í miðborginni, á aðeins ellefu mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×