Erlent

Segjast hafa „út­rýmt“ bana­mönnum ofurstans

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Skjáskot úr myndefni CCTV af vettvangi þar sem ofurstinn Ivan Voronych var á leið út úr húsi þegar hann var skotinn til bana
Skjáskot úr myndefni CCTV af vettvangi þar sem ofurstinn Ivan Voronych var á leið út úr húsi þegar hann var skotinn til bana

Úkraínsk yfirvöld segjast hafa drepið tvo rússneska fulltrúa sem báru ábyrgð á dauða háttsetts úkraínsks ofursta sem var skotinn til bana á fimmtudag.

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar SBU, Vasyl Malyuk, sagði í myndbandsyfirlýsingu að tveir fulltrúar sem störfuðu fyrir Leyniþjónustu Rússlands (FSB) hefðu verið eltir uppi og þeim „útrýmt“ eftir að þeir streittust á móti lögregluþjónum við handtöku á sunnudagsmorgun.

Ofurstinn Ivan Voronych var nýkominn út úr íbúðarblokk í Kænugarði um miðjan dag á fimmtudag þegar maður hljóp upp að honum og skaut hann fimm sinnum með þeim afleiðingum að hann lést. Seinna sást til skotmannsins, sem enn er ekki búið að bera kennsl á, flýja Holosivskí-hverfi ásamt konu, sem úkraínska leyniþjónustan segir vera hina 34 ára Narmin Guliyeva.

Úkraínsk lögregluyfirvöld segja að þau tvö sem voru drepin hafi verið „íbúar erlends lands“ án þess að gefa frekari skýringar á því. Rússnesk yfirvöld hafa ekki brugðist við yfirlýsingum Úkraínumanna.

Úkraínska leyniþjónustan segir að fólkið hefði rakið ferðir Voronych fyrir árásina og fengið send hnit að leynilegum stað þar sem fundu skammbyssu með hljóðdeyfi. Þau hafi síðan reynt að láta lítið fyrir sér fara en verið gómuð af úkraínsku lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×