Viðskipti innlent

Seldi í­búðina og keypti Bitcoin í staðinn

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Bergþór Másson stýrir hlaðvarpinu Skoðanabræður, er umboðsmaður rapparans Birnis, og er auk þess einn eiganda fatafyrirtækisins Takktakk.
Bergþór Másson stýrir hlaðvarpinu Skoðanabræður, er umboðsmaður rapparans Birnis, og er auk þess einn eiganda fatafyrirtækisins Takktakk. Instagram

Bergþór Másson, athafnamaður, hlaðvarpsstjórnandi, lífskúnster og umboðsmaður hefur selt íbúð sína og tekið ákvörðun um að leigja í staðinn. Hann telur að peningum sínum sé betur borgið í öðrum fjárfestingarkostum en fasteignum, og hefur hann meðal annars verið ötull talsmaður rafmynta.

Fyrr í sumar setti Bergþór íbúð sína við Hverfisgötu á sölu. Um er að ræða 33 fermetra stúdíóíbúð á fjórðu hæð í hjarta miðborgarinnar, og var ásett verð 44.900.000 krónur.

Um það leyti sem hann var að selja íbúðina birti Bergþór vangaveltur sínar um fasteignir sem fjárfestingarkost á samfélagsmiðlinum X, og sagði frá viðskiptum sínum varðandi íbúðina við Hverfisgötu.

Sagði hann meðal annars að þrátt fyrir að hann væri að selja íbúðina 10 milljónum dýrari en hann keypti hana árið 2020, hefði verðbólga verið 45 prósent undanfarin fimm ár og hann væri því að selja undir raunvirði.

Auk þess hefði hann borgað um tíu milljónir í vexti á þessum fimm árum.

„Hefði ég tekið ákvörðun um að setja þessar 9.000.000 í Bitcoin og leigja íbúð væri sá peningur í dag orðinn 145.000.000.“

Bergþór virðist hafa selt íbúðina og leitar nú að íbúð til leigu á samfélagsmiðlum. Hann staðfestir í samtali við fréttastofu að planið sé að leigja og fjárfesta peningum annars staðar en í steypu. Hann hafi talað um það opinberlega og hafi auk þess lengi talað um ágæti Bitcoin á samfélagsmiðlum.

Annars vill Bergþór ekki gefa það upp nákvæmlega hvernig hann háttar þessu.

„Bitcoin er leiðin, það er bara þannig,“ sagði Bergþór í færslu á X 20. maí síðastliðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×