Erlent

Pútín rekur sam­gönguráðherrann eftir miklar raskanir á flugi

Kjartan Kjartansson skrifar
Roman Starovoit, þáverandi samgönguráðherra Rússlands, (t.h.) með Pútín forseta á meðan allt lék í lyndi.
Roman Starovoit, þáverandi samgönguráðherra Rússlands, (t.h.) með Pútín forseta á meðan allt lék í lyndi. Vísir/EPA

Vladímír Pútín Rússlandsforseti rak samgönguráðherrann sinn í morgun. Engin skýring var gefin á brottrekstrinum en miklar raskanir urðu á flugsamgöngum í Rússlandi um helgina vegna drónaárása Úkraínumanna.

Rússar hafa ítrekað þurft að loka lofthelgi sinni vegna drónarárása Úkraínumanna á hernaðarmannvirki undanfarin misseri. Nú um helgina þurftu rússnesk flugfélög að aflýsa hátt í fimm hundruð flugferðum, vísa þurfti 88 flugvélum frá áfangastöðum sínum og seinkanir urðu á um 1.900 ferðum til viðbótar samkvæmt upplýsingum rússneskra flugmálayfirvalda.

Raskanirnar eru flugfélögunum dýrkeyptar. Þau þurftu að endurgreiða um 43.000 flugmiða og hýsa og fæða um 94.000 manns, að því er segir í frétt evrópsku útgáfu Politico.

Tilkynnt var um brottrekstur Romans Starovoit, samgönguráðherra, í tilskipun frá Pútín í morgun. Starovoit hafði aðeins gegnt embættinu frá því í fyrra. Hann var áður héraðsstjóri landamærahéraðsins Kúrsk þar sem Úkraínumenn gerðu óvænta innrás í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×