Innlent

Rúm­lega 300 öku­menn sviptir eða sektaðir í dag á Kringlu­mýrar­braut

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Unnið er að sérakrein fyrir strætisvagna á vegarkaflanum og því talsvert af vinnumönnum þétt við akstursbrautir.
Unnið er að sérakrein fyrir strætisvagna á vegarkaflanum og því talsvert af vinnumönnum þétt við akstursbrautir. Vísir/Einar

Allnokkrir ökumenn voru sviptir ökuréttindum og 322 ökumenn eiga von á sekt eftir að hafa ekið á meðalhraða 49 á Kringlumýrarbraut á vegarkaflanum á milli Miklubrautar og Háaleitisbrautar eru menn og tæki við vinnu mjög nálægt akstursbrautinni.

Myndavélabíll lögreglunnar mældi þar eftir hádegi í dag en vegna framkvæmdanna er hámarkshraðinn 30 kílómetrar á klukkustund. Unnið er að sérakrein fyrir strætisvagna fyrir miðjum veginum.

Svona verður akreinafjöldinn að framkvæmdum loknum.Vísir/Sara

Frá því um miðja síðustu viku hafa hundruð ökumanna verið staðnir að hraðaakstri, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Oft er um að ræða mjög gróf hraðaakstursbrot.  Tekið er fram að tveir hafi verið teknir á meira en 160 kílómetra hraða og annar þeirra ölvaður. Á Reynisvatnsvegi hafi bíll mælst á 115 þar sem leyfður hámarkshraði er 50 og í Arnarbakka hafi ökumaður ekið á rúmlega hundrað þar sem hámarkshraðinn er 30.

„Ljóst er að ökumenn þurfa að staldra við og hugsa sinn gang, en með sama áframhaldi mun fara illa og alvarlegt slys hljótast af.“

Lögreglan segir allnokkra ökumenn verið sviptir ökuréttindum fyrir að hafa ekið á tvöföldum hámarkshraða og rúmlega það. Þar sé sérstaklega vísað til Kringlumýrarbrautarinnar, eða vegarkaflans á milli Miklubrautar og Háaleitisbrautar þar sem framkvæmdir standa yfir.

„Eftir vöktunina eiga 322 ökumenn von á sekt, en meðalhraði hinna brotlegu var 49. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Kringlumýrarbraut til norðurs og var brotahlutfallið 41%. Sjö óku á vel yfir 60 og fimm á meira en 70, en allir tólf ökumennirnir eiga yfir höfði sér sviptingu ökuréttinda, auk sektar,“ segir lögreglan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×