Innlent

Hættir að taka krókinn um Háa­leitis­braut og Miklu­braut

Atli Ísleifsson skrifar
Áætlað er að með breytingunni styttist akstursleiðin á leið 4 um 1,2 kílómetra.
Áætlað er að með breytingunni styttist akstursleiðin á leið 4 um 1,2 kílómetra. Vísir/Vilhelm

Strætisvagnaleið 4 mun brátt hætta að keyra krókinn um Háaleitisbraut og Miklubraut í Reykjavík á leið sinni og mun þess í stað fara um Kringlumýrarbraut.

Breytingar á leiðinni taka gildi í lok sumars þegar um 400 metra forgangsakrein fyrir strætisvagna verður komið fyrir á Kringlumýrarbraut, milli Háaleitisbrautar að Miklubrautar.

Þetta var ákveðið á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í gær. Í greinargerð samgöngustjóra Reykjavíkurborgar segir að með breytingunni styttist akstursleiðin um 1,2 km og um þrjár til sjö mínútur. þannig sé áætlað að breytingin stytti aksturstíma um 150 til 350 klukkustundir á mánuði

Þar að auki batnar aðgengi þeirra sem búa og starfa vestan Kringlumýrarbrautar, en að leið 11 mun áfram aka Háaleitisbraut og halda uppi þjónustu þar.

Sjálfstæðismenn ekki ánægðir

Sjálfstæðismenn í ráðinu greiddu atkvæði gegn tillögunni og sögðu hana munu hafa í för með sér verulega skerðingu á strætisvagnaþjónustu í Múlahverfi. 

„Við breytinguna mun leiðin hætta að þjóna tíu biðstöðvum í þessu fjölsótta hverfi. Í hverfinu eru margir fjölmennir vinnustaðir, vinsælar verslanir og Fjölbrautaskólinn við Ármúla svo eitthvað sé nefnt,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna.

Leið 4 ekur milli Skúlagötu og Breiðholts með viðkomu meðal annars í Mjódd og Hamraborg.

Strætó

Tíu stöðvar hverfa af leiðinni

Eins og staðan er í dag þá er leið 4 á þá leið, þegar keyrt er úr Kópavogi, að vagninn beygir frá Kringlumýrarbraut í austur á Miklubraut, þar sem stoppistöðin „Kringlan“ sé staðsett. Hún heldur svo áfram í norður eftir Háaleitisbraut þar sem stöðvarnar „Fellsmúli“, „Háaleitisbraut“, „Samgöngustofa“ og „Lágmúli“ eru staðsettar. 

Leiðin ekur sömu leið í hina áttina, það er beygir austur inn á Háaleitisbraut og síðan í vestur eftir Miklubraut. Breytingin felur því í sér að fimm biðstöðvar í hvora átt verða ekki lengur hluti af leið 4.

„Álftamýri“ bætist við

Við breytinguna bætast við stoppistöðvar sem kallast „Álftamýri“ beggja vegna við Kringlumýrarbraut við gatnamótin Kringlumýrarbraut-Háaleitisbraut sem kemur til móts við þær biðstöðvar sem detta út. Í greinargerðinni kemur fram að innstig/útstig eru um 230 á hverjum degi á stoppistöðvunum fimm sem munu detta út á leiðinni.

Leið 4 ekur milli Skúlagötu og Breiðholts með viðkomu meðal annars í Mjódd og Hamraborg.strætó

Tengdar fréttir

Fjölga ferðum og auka tíðni ákveðinna leiða Strætó í haust

Auka á þjónustu Strætó í haust á ákveðnum leiðum. Ákveðnar leiðir munu ganga lengra fram á kvöld og tíðni ákveðinna leiða verður aukinn á annatíma og á milli annatíma. Þjónustuaukningunni er ætla að venja fólk við aukinni tíðni áður en nýtt leiðanet tekur gildi með tilkomu Borgarlínunnar árið 2031.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×