Skoðun

Palestína í Euro­vision

Sigurður Loftur Thorlacius skrifar

Það var áfall að sjá Ísrael lenda í öðru sæti Eurovision í gær og hljóta flest atkvæði úr símakosningu. Hvernig getur ríki sem fremur þjóðarmorð fengið svona mörg atkvæði? Er einhver maðkur í mysunni?

Það er rétt að taka fram að ég hef ekkert á móti gyðingum og fordæmi öll hryðjuverk, þar með talin hryðjuverk Hamas fyrir hálfu ári síðan. En þó að hryðjuverk séu hryllileg þá er þjóðarmorð margfalt verra, samkvæmt skilgreiningu. Markmið hryðjuverka er að valda ótta og skelfingu (e. terror) en markmið þjóðarmorðs er að útrýma. Það er ekkert sem réttlætir þjóðarmorð, ekki hryðjuverk, ekkert. Trúarbrögð veita heldur engum tilkall til landsvæðis annarra.

Mannfallstölurnar tala sínu máli: Rúmlega 1.700 Ísraelar eru látnir og 53.250 Palestínubúar, þar af 80% óbreyttir borgarar og 30% börn. Þrjátíu Palestínubúar eru drepnir fyrir hvern Ísraela. Valdaójafnvægið er gífurlegt, enda veita Bandaríkin Ísrael mikla hernaðaraðstoð.

Hvernig getur Ísrael hlotið svona góða kosningu í söngvakeppni sem ætti að vera um ást, ást, frið, frið, eins og Svíar orðuðu það árið 2016? Fjármagn hlýtur að spila inn í, til dæmis er stærsti bakhjarl keppninnar, Moroccanoil, ísraelskt fyrirtæki. Sá sem styður Ísrael í blindni hikar varla við að kjósa Ísrael 20 sinnum á meðan þau sem fordæma þjóðarmorðið sniðganga keppnina. Þá hef ég heyrt að Ísrael hafi auglýst lagið sitt í öðrum löndum.

Auðvitað hefði átt að víkja Ísrael úr keppninni en fyrst það gekk ekki, hvað er þá til bragðs að taka? Hvað getur Ísland gert til að styðja Palestínu annað en að fordæma þessi þjóðarmorð? Gætum við hjálpað Palestínu að ganga í Samband evrópskra sjónvarpsstöðva og boðist til að fjármagna og skipuleggja þátttöku þeirra í Eurovision?

Eitt er víst að með þátttöku sinni í Eurovision hvítþvær Ísrael sig af þjóðarmorðinu á Gaza og það sárvantar mótvægi við því.

Höfundur er umhverfisverkfræðingur




Skoðun

Sjá meira


×