Erlent

Á­rásirnar sagðar þær um­fangs­mestu síðan við­ræðurnar fóru fyrir bí

Jón Þór Stefánsson skrifar
Árásirnar nú eru sagðar þær umfangsmestu síðan í mars.
Árásirnar nú eru sagðar þær umfangsmestu síðan í mars. Getty

Tæplega 150 hafa látið lífið, að sögn palestínskra yfirvalda, síðastliðinn sólarhring í loftárásum Ísraela. Á þessum sama tíma eru 459 sagðir hafa særst. Árásin er liður í áætlunum ísraelskra yfirvalda um að hertaka ströndina alfarið.

Síðan á fimmtudag munu árásir Ísraelsmanna hafa verið þær umfangsmestu á ströndina frá því að samkomulag um vopnahlé varð að engu í byrjun marsmánaðar.

AFP greinir frá því að Mohammed Shia al-Sudani, forsætisráðherra Írak, hefur heitið því að verja fjörutíu milljónum bandaríkjadölum í enduruppbyggingu í Líbanon og Gasa eftir stríðsátök við Ísrael. Fram kemur að þessum fjármunum verði skipt jafnt milli Líbanon og Gasa, þannig að tuttugu milljónir fari í sitthvora áttina.

Hann mun hafa tilkynnt um þetta á fundi Arababandalagsins sem fer fram í Írak þessa dagana.

Í gær var greint frá því að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefði undirritað yfirlýsingu með leiðtogum sex annarra ríkja þar sem því er lýst yfir að tafarlausra aðgerða sé þörf til að koma í veg fyrir frekari hörmungar á Gasa.

Forsætisráðherrar Íslands, Spánar, Noregs, Írlands, Lúxemborgar, Slóveníu og Möltu skrifuðu undir þessa yfirlýsingu.

Ísland er sagt hafa átt frumkvæði að gerð yfirlýsingarinnar og veitt því forystu ásamt Spáni að hópurinn náði saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×