Skoðun

Flótta­manna­vegurinn er loksins fundinn

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Hvar er Flóttamannavegurinn var fyrirsögn greinar eftir fyrrverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar og núverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins, Rósu Guðbjartsdóttur sem birtist í byrjun vikunnar. Svarið við þeirri spurningu er að vegurinn er loksins fundinn þökk sé ríkisstjórninni og málflutningi Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Nýtilkominn áhugi Sjálfstæðisflokksins, sem fór einnig fram á umræðu um málið á fundi bæjarstjórnar í vikunni, er hins vegar hlálegur í ljósi þess að á þeim 10 árum sem flokkurinn fór með stjórn mála bæði í bæjarstjórn og ríkisstjórn gerðist ekkert í málinu - nákvæmlega ekkert og umræður á síðasta bæjarstjórnarfundi leiddu það berlega í ljós. Fyrirsögn greinar bæjarstjórans fyrrverandi er því í raun mjög góð og raunsönn lýsing á vinnubrögðum hennar og þeirra meirihluta, sem hún hefur farið fyrir í bæjarstjórn, og Sjálfstæðisflokksins sem setið hefur í ríkisstjórn allan þennan tíma. Þau týndu veginum og fundu hann aldrei aftur.

Samfylkingin ítrekað sett úrbætur í samgöngumálum á dagskrá

Allt þetta kjörtímabil hefur Samfylkingin ítrekað sett mikilvægar samgönguúrbætur í þágu Hafnfirðinga á dagskrá. Við höfum kallað eftir því að bæjarstjórn tali með skýrari hætti um áherslur bæjarins og hefði skýra stefnu og sýn. Því miður hefur meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks einatt mætt tómhentur til þeirrar umræðu og erfitt hefur verið að átta sig á stefnu og áherslum meirihlutans í þessum mikilvæga málaflokki. Það er áhyggjuefni fyrir bæjarbúa.

Sjálfstæðisflokkurinn vaknar til lífsins

En hvað varð til þess að Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði vaknaði loksins til lífsins í málinu eftir 10 ára þyrnirósarsvefn? Jú, hann áttaði sig á því að með nýrri ríkisstjórn er loksins komin hreyfing á málið. Í tillögu að nýrri samgönguáætlun ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur er vegurinn settur á dagskrá og gert er ráð fyrir 50 milljón kr. framlagi vegna hönnunar á veginum á næstu tveimur árum. Vissulega mætti taka enn stærri skref í málinu og jafnaðarfólk í Hafnarfirði hvetur sannarlega til þess að fjárveitingar hækki svo hraða megi verkefninu eins og kostur er. Enda hafa fulltrúar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði margoft bent á mikilvægi þess að ráðist verði í endurbætur og uppbyggingu á Elliðavatnsvegi/Flóttamannavegi, sem gegnir lykilhlutverki sem tenging milli Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs og hvatt til þess ráðist verði í þær strax svo tryggja megi öruggari og greiðari samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Samfylkingin berst áfram fyrir umbótum í samgöngumálum Hafnfirðinga

Flóttamannavegurinn var sannarlega týndur í meðförum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, bæði í ríkisstjórn og meirihluta þessara flokka í Hafnarfirði. En hann er loksins fundinn - þökk sé ríkisstjórn og málflutningi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Við fögnum auðvitað öllum nýjum liðsmönnum í baráttu fyrir stórum hagsmunamálum Hafnfirðinga og bjóðum Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn velkomna til leiks í þessu máli. Það er ánægjulegt að þeir hafi loksins vaknað til lífsins í kjölfar málflutnings Samfylkingarinnar þó þeir hafi auðvitað sofið alltof lengi í þessu máli - og mörgum öðrum raunar líka. Samfylkingin mun hins vegar hér eftir sem hingað til halda á lofti og berjast fyrir mikilvægum umbótum í samgöngumálum Hafnfirðinga. Þar er verk að vinna og Samfylkingin er með skýra stefnu og sýn og tilbúin að ganga í verkin.

Árni Rúnar Þorvaldsson

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði




Skoðun

Sjá meira


×