Skoðun

Ég sá Jesú í fréttunum

Daníel Ágúst Gautason skrifar

Ég sá Jesú í fréttunum.

Þið sáuð hann líka.

Hann birtist okkur sem ungur drengur með bláa kanínuhúfu á höfðinu.

Jósef hafði neyst til þess að flýja þegar hermennirnir komu til að taka þá.

“Gott,” segja sumir. “Hér eru hermennirnir að viðhalda lögum og reglum. Þeir björguðu drengnum frá vanhæfum föður sem lagði á flótta.”

Ég sé Jesú ennþá í fréttunum.

Hann er núna innilokaður. Ég sé mynd af honum þar sem hann liggur örmagna í fangi Jósefs.

Hann nærist illa. Fréttir berast um að maturinn sem boðið er upp á er myglaður og ormétinn.

Sorgmæddur biður hann um hattinn sinn aftur, sem var tekinn af honum.

Jesús heitir í dag Liam Conejo Ramos og er fimm ára gamall.

Kristnir söfnuðir í Bandaríkjunum hafa fagnað þessu og krafist þess að honum verði kastað úr landi.

Þetta er ekki kristindómur. Þetta er samviskuleysi.

Hlustum ekki á samviskuleysið.

Hlustum á það sem Jesús sagði.

“Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.” Matteusarguðspjall 25.45

Höfundur er guðfræðingur. 




Skoðun

Sjá meira


×