Skoðun

Fyrir hverja eru leik­skólar

María Ellen Steingrímsdóttir skrifar

Leikskólinn er fyrsta skólastigið þar sem okkar minnstu og mikilvægustu samborgarar taka sín fyrstu skref í að verða hluti af samfélaginu. Þar er félagsfærni, málþroski og öryggi þeirra byggt upp undir vökulu auga starfsfólks sem hefur atvinnu af því að stuðla að öryggi og vellíðan barna í námi og leik. Leikskólar eru líka grundvallarforsenda þess að foreldrar ungra barna geti tekið þátt í atvinnulífinu.

Tímamótalausnin

Árið 2023 var innleidd tímamótalausn á leikskólavandanum í Kópavogi. Komið var á fót kerfi sem fól í sér að sex klukkustunda leikskóladvöl sé gerð gjaldfrjáls og hver mínúta upp frá því skyldi rukkuð dýrum dómi. Þessari tímamótalausn var ætlað að bæta starfsumhverfi barna og starfsfólks og auka fyrirsjáanleika, allt með því eina að skapa fjárhagslegan hvata fyrir foreldra að stytta dvöl barna sinna á leikskólunum. Tímamótalausnin hefur skilað árangri og er starfsfólk  ánægðara og dregið hefur úr álagi. Börnin eru færri í byrjun dags og í lok dags. Það er vel. 

Tímamótalausnin í Kópavogi felur í sér þjónustuskerðingu fyrir foreldra. Með lausninni er gjaldskráin hækkuð svo freklega að umræddan hvata mætti frekar telja til þvingunarráðstafana. Í Kópavogi bera nefnilega barnafjölskyldur sem notast við 8 klukkustunda leikskólavistun fyrir börnin sín, þyngstu fjárhagsbyrði vegna leikskólagjalda af öllum sveitarfélögum landsins. Í Kópavogi borga fjölskyldur leikskólabarna sem kaupa sér tveggja klukkustunda vistun ofan á þær sex gjaldfrjálsu 144.096 kr. meira en fjölskyldur í Hafnarfirði gera fyrir sama vistunartíma á ári og 153.432 kr. meira en fjölskyldur á Akureyri gera á ári. Bæði þessi sveitafélög bjóða einnig uppá gjaldfrjálsar fyrstu 6 klukkustundir. Í ársuppgjöri heimilisbókhaldsins geta 150.000 krónur skipt máli. 

Sveigjanleiki og gæðastundir eða kvöð

Fulltrúum meirihlutaflokkanna er tíðrætt um um að aukinn sveigjanleiki og skráningardagar hafi skapað tækifæri fyrir foreldra leikskólabarna í Kópavogi til að samræma betur vinnu og fjölskyldulíf en óháð rannsókn um viðhorf foreldra dregur upp allt aðra mynd, þar sem foreldrar lýsa yfir samviskubiti, þreytu og stöðugri tímapressu. Niðurstöðurnar benda til þess að kerfið virki helst fyrir foreldra sem hafa sveigjanlegan vinnutíma og sterkt bakland, sem er einfaldlega ekki staðan hjá öllum. Þá geta breytingarnar jafnframt haft neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku kvenna og kynjajafnrétti, sem er rauður þráður í umræðunni þegar ábyrgðin færist heim til foreldra. Bæjarstjóri Kópavogs gefur lítið fyrir rannsóknina og telur hana ekki marktæka vegna of lítils úrtaks. Hvað sem því líður eiga þá eiga niðurstöður hennar fullt erindi í umræðuna.

Þá hefur tekist að snúa 8 klukkustunda leikskóladvöl barna upp í eitthvað neikvætt. Foreldrum er gefið að nýta leikskólana sem geymslu, því er gert undir fótinn að foreldrar hugsi frekar um eigin starfsframa en uppeldi barna sinna eða að foreldrar hafi eitthvað á móti bættum starfsaðstæðum starfsfólks. Það er nefnilega þannig að þeir einu sem græða á því að stilla upp starfsfólki leikskóla á móti foreldrum ungra barna eru stjórnmálamenn með engin önnur úrræði.

Börnin úr leikskólunum er ekki lausnin

Leikskólavandinn er hugtak sem endurspeglast í þeirri staðreynd að allir eru sammála um að leikskólakerfið sé ómissandi en enginn ætlar að taka ábyrgð á því að þeir virki í raun. Vandinn er ekki skortur á góðum vilja, heldur skortur á aðgengi, fagfólki og heildarsýn samfélagsins alls.

Lausnin á leikskólavandanum er ekki að taka börnin úr leikskólanum eða gera foreldrum erfiðara fyrir að samræma fjölskyldulíf og atvinnu. Því það er raunin með svona ráðahag. Tímamótalausnin í Kópavogi er afkvæmi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi undir klappstjórn Framsóknarflokksins. Markaðsþenkjandi flokknum tekst að vega að atvinnuþátttöku foreldra undir þeirri yfirskrift að þetta eigi að vera hvetjandi og börnunum fyrir bestu. Þau sem ekki geta sitja uppi með svo himinhá leikskólagjöld að skömm er af því. Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs fyrir rúmlega tveimur vikum var ljóst að meirihlutinn í bæjarstjórn Kópavogs hefur engan áhuga á að skoða leiðréttingu eða lækkanir á hæstu leikskólagjöldum landsins.

Í Kópavogi þarf að lækka leikskólagjöld og sýna í verki að börn og fjölskyldur séu forgangsmál. Endurskoða þarf forsendur tímamótalausnarinnar, sem var kynnt sem tilraunaverkefni. Leikskólinn á nefnilega að vera fyrir börnin, starfsfólkið og foreldra.

Höfundur er foreldri tveggja ára leikskólabarns í Kópavogi og frambjóðandi til oddvita Viðreisnar í Kópavogi. 




Skoðun

Sjá meira


×