Innlent

Afi fór ekki yfir strikið með meintri rassskellingu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Héraðsdómur Norðurlands vestra er á Sauðárkróki.
Héraðsdómur Norðurlands vestra er á Sauðárkróki. Vísir/Egill

Maður sem ákærður var fyrir meint ofbeldi gagnvart barnabarni sínu með því að rasskella strákinn var sýknaður í héraðsdómi. Maðurinn var talinn hafa sýnt af sér varnarviðbragð vegna hegðunar drengsins.

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra kemur fram að málið hafi verið höfðað af móður barnsins gegn manninum fyrir að hafa 1. ágúst 2024 beitt barnabarn sitt ofbeldi og líkamlegum refsingum, sýnt honum yfirgang og ruddalegt athæfi en ákærði rasskellti barnabarn sitt. Maðurinn neitaði sök.

Málið er rakið í dóminum. Þar segir að drengurinn hafi greint frá hinu meinta broti í viðtali við barnavernd 13. ágúst 2024. Drengurinn hafi haldið upp á afmælið sitt og orðið „eitthvað pirraður“ í afmælinu og farið inn í herbergi. Sagði hann að afi hans hafi í framhaldinu farið inn í herbergi til hans, barið hann í bringuna, rasskellt hann, kyrkt hann og ýtt honum utan í vegg.

Sagðist hafa varið sig

Maðurinn gaf skýrslu fyrir dómi og sagðist hafa verið staddur hjá syni sínum og tengdadóttur þennan dag. Þar hafi drengurinn verið og sonur tengdadóttur mannsins. Strákarnir hafi farið að rífast og drengurinn lamið hinn í andlitið. Lýsti maðurinn því að drengurinn hafi verið „trylltur.“ Hann hafi sest á rúmið og haldið utan um drenginn sem hafi orðið „alveg vitlaus,“ hent síma sínum í gólfið og hótað að brjóta rúðu.

Hann hafi reynt að halda stráknum sem hann hafi vitað að væri „alveg ógnarsterkur“ og drengurinn verið kominn ofan á hausinn á honum og hann varla ráðið nokkuð við hann. Hann hafi þá slegið á lærið á honum og sagðist með þessu hafa verið að verja sig með þessu því drengurinn væri hættulegur, tilgangurinn hafi einungis verið að losna frá honum.

Hafi átt það til að beita ofbeldi

Þá sagði hann aðspurður einungis hafa slegið drenginn í lærið en ekki rasskellt hann. Sagði hann drenginn einhverfan og búa til sögur.

Ennfremur kemur fram í dómi að drengurinn hafi átt það til að beita ofbeldi, verið mjög erfiður viðfangs þegar hann reiddist og meðal annars þurft að kalla til lögreglu á heimili hans vegna hegðunar hans.

Segir í dómi að þegar gögn málsins séu metin í heild standi líkur til þess að höggið sem maðurinn hafi veitt drengnum hafi verið einhverskonar varnarviðbragð ákærða við yfirstandandi árás drengsins en að það hafi ekki haft þann tilgang að meiða drenginn eða refsa honum. Maðurinn því sýknaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×