Skoðun

Fyllerí eru hættu­leg

Hjalti Már Björnsson skrifar

Áfengi er lífrænt leysiefni, efnafræðilega skylt lampaolíu, terpentínu og bensíni. Þrátt fyrir að áfengi sé eitrað hefur neysla þess hingað til verið merkilega útbreidd í samfélagi okkar.

Víða hefur því verið haldið fram að hófleg neysla áfengis sé skaðlaus eða jafnvel beinlínis heilsubætandi. Umfangsmiklar rannsóknir hafa hins vegar staðfest að öll notkun áfengis er heilsuspillandi, eykur tíðni krabbameina og annarra sjúkdóma og styttir líf. Skaðsemi áfengis virðist vera í beinu hlutfalli við drykkjuna. Þannig er sennilega meinlítið að nota áfengi í hófi, en sannarlega ekki skaðlaust.

Að nota áfengi í óhófi, að fara á svo kallað „fyllerí“, er hins vegar hættuleg iðja. Hugsaðu þig aðeins um, hvað þekkir þú persónulega einstaklinga sem hafa dottið og slasast á fylleríi? Hvað veistu um marga sem hafa orðið fyrir ofbeldi, eða jafnvel beitt ofbeldi tengt áfengisnotkun? Kannast þú ekki við einhvern sem hefur fundið fyrir alvarlegum kvíða eða þunglyndi í kjölfar mikillar áfengisdrykkju?

Því mæli ég sterklega gegn því að drekka áfengi í það miklu magni að mikil ölvun hljótist af. Ef þú endilega telur nauðsynlegt að fara á fyllerí mæli ég með því að taka lífinu eins rólega og hægt er, helst að vera með hjálm til að draga úr líkum á höfuðáverkum.

Í starfi mínu sem læknir á bráðamóttökum síðan á síðustu öld sé ég á hverjum degi skuggahliðar áfengisneyslu. Nýlega gerði ég óformlega könnun þar sem læknar og hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítala voru beðin um að áætla hversu oft þau teldu að áfengi væri undirliggjandi orsakavaldur þess að einstaklingar leita á bráðamóttöku. Reyndist mat þeirra vera að í fimmta hverju tilviki sem einstaklingur kemur á bráðamóttöku sé áfengi undirliggjandi orsök. Þegar spurt var sérstaklega um komur vegna geðrænna einkenna töldu læknar og hjúkrunarfræðingar bráðamóttökunnar áfengi hafa valdið helmingi af öllum komum. Staðfestir þetta enn og aftur hve miklu tjóni áfengisnotkun veldur á heilsu þjóðarinnar.

Sem betur fer virðast sífellt fleiri átta sig á því að ekkert vit er í að drekka frá sér ráð og rænu. Heilsa og hamingja fæst með heilbrigðum lífsstíl, ekki með því að drekka áfengi.

Öl er böl.

Höfundur er bráðalæknir.




Skoðun

Skoðun

Fimm rang­færslur um Byrjendalæsi

Gunnar Gíslason,Guðmundur Engilbertsson,Jenný Gunnbjörnsdóttir ,Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir,Rannveig Oddsdóttir,Rúnar Sigþórsson skrifar

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×