Handbolti

Séra Guðni mættur til Malmö: „Við erum að fara í undan­úr­slit“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Séra Guðni Már kemur með jákvæða orku í Malmö Arena í dag.
Séra Guðni Már kemur með jákvæða orku í Malmö Arena í dag.

Séra Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju, er gríðarlegur handboltaáhugamaður og er mættur með sína jákvæðu strauma til Malmö.

„Mitt fyrsta mót var í Magdeburg í Þýskalandi árið 2007 þegar við unnum meðal annars frækinn sigur á Frökkum,“ segir séra Guðni Már en hann hefur verið með stórmótabakteríuna í blóðinu síðan og kíkt af og til á strákana okkar.

Klippa: Séra Guðni spáir Íslandi í undanúrslit

„Að standa og syngja þjóðsönginn með löndum sínum er það sem gerir þetta einstakt. Það er hægt að fara á fótboltaleiki í Manchester til að mynda en þá ertu meira eins og túristi. Hér snýst þetta um hjartað, fólkið og auðvitað geggjað lið. Öll þjóðin er að horfa. Ástæðan fyrir því að allir eru að horfa er að við eigum lið í heimsklassa.“

Guðni Már var mættur til Malmö í gær til þess að hjálpa við að ýta liðinu yfir þröskuldinn inn í undanúrslitin.

Guðni Már líflegur í stúkunni í gær.vísir/vilhelm

„Ég ætla bara að segja það. Við erum að fara í undanúrslit. Ég ætla að trúa því. Næstu ár eru spennandi. Næsta mót er í Þýskalandi. Það eru margir heima að hugsa núna af hverju fór ég ekki út. Nú er tækifærið að byrja að safna. 20 þúsund á mánuði og þá verður allt klárt fyrir Þýskaland,“ segir Guðni kátur en hann mun láta vel í sér heyra á leiknum gegn Slóveníu á eftir.

„Ég held að þeir komi þreyttir gegn okkur. Ef að drengirnir eru komnir með bragð af undanúrslitunum þá eru þeir að fara þangað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×