Handbolti

Vill Wille burt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Noregur hefur ekki unnið til verðlauna á stórmóti undir stjórn Jonasar Wille.
Noregur hefur ekki unnið til verðlauna á stórmóti undir stjórn Jonasar Wille. getty/Sina Schuldt

Þriðji markahæsti leikmaður í sögu norska handboltalandsliðsins vill losna við þjálfara þess. Norðmenn eiga ekki lengur möguleika á að komast í undanúrslit á Evrópumótinu.

Noregur gerði 35-35 jafntefli við Portúgal í næstsíðasta leik sínum í milliriðli I á EM í gær. Norðmenn eru með þrjú stig í 4. sæti milliriðilsins og geta í besta falli náð 3. sæti hans og þar með leikið um 5. sætið á EM.

Håvard Tvedten, sem skoraði 809 mörk í 208 landsleikjum á árunum 2000-14, segir að fullreynt sé með Jonas Wille sem þjálfara norska liðsins. Hann tók við því af Christian Berge 2022.

„Þetta eru auðvitað vonbrigði. Að þeir séu enn og aftur ekki að berjast um verðlaun eins og þeir gerðu fyrir nokkrum árum,“ sagði Tvedten á NRK í gær.

„Ég held því miður að þetta sé ekki nógu gott til að halda áfram með Wille. Ég held að það sé kominn tími á breytingar og ég held líka að þeir muni ráðast í þær,“ bætti Tvedten við.

Håvard Tvedten lék í vinstra horninu og var afar markheppinn.getty/sampics

Wille er á sínu fimmta stórmóti með norska liðið. Það endaði í 6. sæti á HM 2023 og 10. sæti á HM í fyrra. Á EM 2024 lenti Noregur í 9. sæti og í 6. sæti á Ólympíuleikunum sama ár.

„Ég held að það þurfi nýjar hugmyndir. Wille hefur átt fjögur góð ár með mörgum góðum augnablikum en við höfum aldrei barist um verðlaun,“ sagði Tvedten.

Undir stjórn Berges unnu Norðmenn til silfurverðlauna á HM 2017 og 2019 og bronsverðlauna á EM 2020.

Noregur mætir Danmörku í lokaleik sínum í milliriðli I annað kvöld.


Tengdar fréttir

Hleraði leikhlé Norðmanna

Leikmaður portúgalska handboltalandsliðsins hlustaði á leikhlé Noregs undir lok leiks liðanna í milliriðli I á Evrópumótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×