Skoðun

Fyrir heimabæinn minn

Hilmar Gunnarsson skrifar

Sveitarfélög gegna lykilhlutverki í daglegu lífi fólks. Þar mætast þjónusta, menning, menntun og velferð - þeir þættir sem móta samfélagið okkar til framtíðar. Víða um land hefur þróunin verið hröð undanfarin ár, íbúum fjölgað og kröfur til þjónustu aukist. Slíkar breytingar kalla á skýra sýn, forgangsröðun og samvinnu.

Mosfellsbær er gott dæmi um samfélag sem hefur vaxið hratt og tekið hröðum breytingum en jafnframt lagt ríka áherslu á að varðveita sérstöðu sína, sveit í borg. Hér er blómlegt menningarlíf, öflugt skólastarf og fjölbreytt þjónusta við íbúa. En eins og annars staðar er alltaf tilefni til að gera betur. Þegar samfélög stækka verður áskorunin sú að halda í þann anda og þau gildi sem gera þau eftirsóknarverð án þess þó að missa sjónar á framtíðinni.

Reynsla mín af störfum í og með samfélaginu hér hefur kennt mér hversu mikilvægt er að kjörnir fulltrúar þekki raunverulegt líf bæjarbúa. Að þeir skilji þarfir fjölskyldna, barna, eldri borgara, atvinnurekenda og allra þeirra sem byggja upp samfélagið - og séu tilbúnir að vinna þvert á skoðanir í þágu heildarinnar. Pólitísk forysta snýst ekki aðeins um stefnumótun og ákvarðanatöku heldur líka um traust, samtal við íbúa - að hlusta á vilja og þarfir samfélagsins og taka ákvarðanir samkvæmt því.

Í ört vaxandi sveitarfélögum skiptir höfuðmáli að grunnstoðir samfélagsins séu traustar. Börnin eru þar lykill að framtíðinni og eiga að vera í forgangi. Öflugir skólar og öruggt nærumhverfi, gott aðgengi að íþrótta- og frístundastarfi og traust velferðarþjónusta verða ekki til af sjálfu sér heldur eru afrakstur markvissrar forgangsröðunar. Slíka forgangsröðun þurfa kjörnir fulltrúar að hafa hugfast í öllum sínum störfum því með henni leggjum við grunn að farsælu samfélagi til framtíðar.

Samhliða markvissri forgangsröðun þurfum við að mynda traust tengsl og vinna með öðrum bæjarfélögum. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og víðar standa frammi fyrir sameiginlegum áskorunum, hvort sem um ræðir samgöngur, skipulagsmál, húsnæðisuppbyggingu eða umhverfismál. Þar er samstarf lykillinn að betri lausnum og skynsamri nýtingu fjármuna.

Sterk sveitarfélög byggja sterkt samfélag. Með skýra framtíðarsýn, rétta forgangsröðun og góða samvinnu við íbúa að leiðarljósi getum við skapað umhverfi þar sem fólk vill búa, ala upp börn og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Það er verkefni sem krefst bæði reynslu og framtíðarsýnar en umfram allt annað vilja og getu til að vinna með fólki og miðla málum. Þetta er sú framtíðarsýn og það starf sem ég vil vinna - fyrir heimabæinn minn.

Höfundur sækist eftir að leiða lista Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ fyrir sveitarstjórnarkosningar 2026.




Skoðun

Sjá meira


×