Innherjamolar

Kald­bakur og KEA koma á fót nýjum fram­taks­sjóði

Hörður Ægisson skrifar

Norðlensku fjárfestingafélögin Kaldbakur og KEA hafa gert með sér samkomulag um stofnun nýs framtakssjóðs sem á að fjárfesta í innlendum nýsköpunar- og vaxtarfyrirtækjum.

Sjóðurinn, sem heitir Landvættir, verður starfræktur hjá rekstrarfélaginu AxUM Verðbréfum og mun í fjárfestingum sínum hafa sérstaka áherslu á fyrirtæki sem hafa með höndum starfsemi á landsbyggðinni. Í upphafi munu Kaldbakur, sem heldur utan um fjárfestingareignir sem áður voru í eigu Samherja, og KEA eiga jafnan hlut í framtakssjóðnum.

Líftími Landvætta er allt að tíu ár, að því er segir í tilkynningu. Fjárfestingar framtakssjóðsins verða ekki bundnar við tilteknar atvinnugreinar heldur horft til almennra nýsköpunarverkefna sem og vaxtar- og stækkunarmöguleika fyrirtækja.

Fyrstu fjárfestingar sjóðsins liggja þegar fyrir. Sjóðurinn tekur við eignasafni Upphafs fjárfestingarsjóðs, sem var að fullu í eigu KEA, og inniheldur eignarhluti í Mýsköpun, Laxá, Arctic Therapeutics og Hinu Norðlenzka styrjufjelagi. Jafnframt hafa Landvættir undirritað samninga um fjárfestingu við tvö nýsköpunarfyrirtæki sem tilkynnt verður um á næstu dögum.

Ekki er tekið fram hvað áætlað er að sjóðurinn verði stór en á næstu mánuðum munu AxUM Verðbréf vinna að því að fá fleiri fagfjárfesta til liðs við Landvætti.

Hreinn Þór Hauksson, framkvæmdastjóri AxUM, segir að með Landvættum sé verið að setja á laggirnar öflugan sjóð með skýra framtíðarsýn. „AxUM Verðbréf leggur áherslu á faglega sjóðastýringu og virka eftirfylgni. Markmiðið er að styðja við fjárfestingar í fyrirtækjum með vaxtarmöguleika og hafa raunveruleg áhrif á atvinnulíf og uppbyggingu á landsbyggðinni.“

Þá segir Halldór Jóhannesson, framkvæmdastjóri KEA, að stofnun Landvætta sé eðlilegt framhald af stefnu fjárfestingafélagsins í gegnum árin að koma beint og óbeint að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu á starfssvæði sínu. „Ég hef mikla trú á þessu verkefni og til verður aukinn slagkraftur til fjárfestinga á þessu sviði sem mun hafa jákvæð áhrif á fyrirtækjaflóru nærumhverfis okkar.“

Í tilkynningunni er einnig haft eftir Hjörvari Maronssyni, fjárfestingastjóra Kaldbaks, að fjárfestingafélagið hafi metnað til að taka virkan þátt í nýsköpunarverkefnum á landsbyggðinni með fjárfestingum sem byggja á arðsemi og ábyrgri nálgun.

„Með aðkomu okkar að Landvættum finnum við þessum metnaði okkar farveg. Það er von okkar að fleiri fjárfestar sláist í lið með okkur og að sjóðurinn verði virkur fjárfestir í arðsömum nýsköpunarverkefnum og leggi þannig sitt af mörkum til öflugrar atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.“


Tengdar fréttir

Arctic Thera­peutics sækir fjóra milljarða frá inn­lendum og er­lendum fjár­festum

Íslenska erfða- og líftæknifyrirtækið Arctic Therapeutics hefur klárað jafnvirði um fjögurra milljarða króna hlutafjáraukningu frá breiðum hópi innlendra og erlendra fjárfesta, meðal annars fjárfestingafélagi Samherja-fjölskyldunnar og norrænu rannsóknarsamsteypunni Sanos Group. Fjármögnunin mun tryggja að félagið geti hafið klínískar rannsóknir á lyfjum við heilabilun og húðbólgusjúkdómum.




Innherjamolar

Sjá meira


×