Handbolti

„Ég er eigin­lega farinn að hata smá Dag Sigurðs­son“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson herjaði á veikleika íslenska landsliðsins og hafði betur á móti Snorra Stein Guðjónssyni.
Dagur Sigurðsson herjaði á veikleika íslenska landsliðsins og hafði betur á móti Snorra Stein Guðjónssyni. Vísir/Vilhelm

Ásgeir Örn Hallgrímsson og Jóhann Gunnar Einarsson ræddu leik Króatíu og Íslands við Ágúst Orra Arnarson í Besta sætinu og fóru þar á meðal yfir þjálfaraeinvígi Íslendinganna Snorra Steins Guðjónssonar og Dags Sigurðssonar.

„Þetta var ekki bara leikur tveggja hörkuliða því þetta var líka mikil barátta milli þjálfara. Það er saga þeirra á milli Snorra Steins og Dags. Hvernig fannst þér, Ásgeir og Snorri koma út úr þessu?“ spurði Ágúst Orri Arnarson.

Ekki out-coachaður núna

„Við náttúrulega töpuðum leiknum þannig að hann varð alveg undir en ef við erum að ýja að því hvort hann hafi verið out-coachaður í leiknum núna, þá fannst mér það ekki,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson.

„Dagur var samt klókur. Mér fannst hann taka það góða úr því sem gerðist í leiknum fyrir nákvæmlega ári síðan. Mér fannst klókt hjá honum, allavega miðað við hvernig þetta þróaðist allt. Hann setti þennan Mateo Maras inn í örvhentu skyttuna, leikmann sem er ekkert búinn að spila neitt rosalega mikið í mótinu. Svo lætur hann örvhentu skyttuna Ivan Martinović vera á miðjunni, bara til þess að klessa okkur niður og svo koma þessar skyttur bara og þrumuðu okkur í spað,“ sagði Ásgeir.

Skelfilegur varnarleikur

„Mér fannst hins vegar að sóknarleikurinn hjá okkur hafi verið miklu, miklu betri. Þannig að við erum að miða þetta alltaf við inninn í fyrra þá fannst mér margt ganga upp hjá okkur miðað við hvernig við vorum að spila þar. Við skoruðum fimmtán mörk í fyrri hálfleiknum og klikkuðum samt á þremur vítum þannig að ég held að sóknarleikurinn hafi ekkert verið neitt agalegur. Þetta var bara númer eitt, tvö og þrjú skelfilegur varnarleikur,“ sagði Ásgeir.

Svo var bara allur leikurinn svona

„Mér fannst alveg magnað að fyrstu fimm sóknir Króata voru alveg eins. Þeir voru bara að koma bara rólega upp miðjuna og svo kom kannski eins klipping og svo bara skot langt fyrir utan og það var mark. Ég hugsaði; Þetta er nú athyglisvert. Fyrstu fimm sóknirnar eru svona alveg eins en svo var bara allur leikurinn svona,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson.

„Það var ekkert hornaspil og það var ekkert línuspil. Hann var bara að treysta á það að skytturnar myndu skora, sem er smá áhætta miðað við sjóðandi heitan Viktor [Gísla Hallgrímsson, markvörð Íslands] frá síðasta leik, en það var bara einhvern veginn allt inni,“ sagði Jóhann.

Ég er orðinn smá pirraður á honum

„Ég er eiginlega farinn að hata smá Dag. Mér finnst þetta Króatalið ekkert sérstakt. [Luka] Cindrić er hérna á síðustu metrunum og er mistækur. Skytturnar eru ekkert á heimsmælikvarða. Þetta eru bara stórir gaurar. Línumaðurinn fær ekki boltann fyrr en í síðustu tveimur sóknunum. Annars er þetta bara ekki neitt. Einhvern veginn nær hann að kreista einhverja flotta frammistöðu á móti okkur. Ég er orðinn smá pirraður á honum,“ sagði Jóhann.

Það má finna alla umræðuna um Króatíuleikinn í Besta sætinu með því að hlusta á allan þáttinn hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×