Skoðun

Við þurfum Dóru Björt í borgar­stjórn

Íris Stefanía Skúladóttir skrifar

Ég hef þekkt Dóru Björt Guðjónsdóttur um árabil. Það sem einkennir hana er sambland auðmýktar og styrks. Hún hlustar, hún tekur ábyrgð og hún leiðir með skýr gildi að leiðarljósi.

Dóra er í stjórnmálum því hún brennur fyrir borginni og hefur skýra sýn á hvert skuli stefna. Hún leggur áherslu á að ákvarðanir séu teknar af heiðarleika og með heildarhagsmuni borgarbúa í huga. Hún lætur ekki staðar numið við frasa og yfirlýsingar heldur fylgir málum eftir og vinnur markvisst að lausnum. Hún er óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir, jafnvel þegar þær eru ekki vinsælar.

Dóra sækist ekki eftir skammtímavinsældum heldur vinnur að því sem hún telur rétt til lengri tíma litið. Það er ekki alltaf auðveldasta leiðin en hún er gjarnan sú rétta. Dóra er þannig ósérhlífin og tekur ábyrgð sína alvarlega. Svo er hún lausnamiðuð og mannasættir. Hún á auðvelt með að vinna með allskonar fólki með ólíkar skoðanir og byggir samstarf á trausti og gagnkvæmri virðingu. Það hefur sýnt sig í störfum hennar í borgarstjórn, þar sem hún hefur myndað þrjá meirihluta með fjórum og nú fimm flokkum þar sem oft þarf að finna sameiginlegar lausnir.

Í haust tók Dóra Björt ákvörðun um að ganga til liðs við Samfylkinguna, eftir vandlega ígrundun. Það var þrátt fyrir að þurfa þá að láta af hendi valdamestu stöðu borgarinnar á eftir borgarstjóra og þrátt fyrir að láta af hendi nokkuð öruggt sæti í borgarstjórn eftir kosningar. Það er vegna þess að hún hlustar á hjartað og er í stjórnmálum af ástríðu. Það er andstæðan við tækifærismennsku.

Loftslagsmál og sjálfbær borgarþróun eru Dóru hjartans mál. Hún vill borg þar sem fólk hefur raunverulegt val í samgöngum með hreinu lofti, aðgengi að nærþjónustu og lífsgæðum sem því fylgir svo borgin verði samkeppnishæf á heimsvísu.

En Dóra er ekki bara öflugur stjórnmálamaður. Hún er hlý, skemmtileg og með smitandi orku. Hún er góð vinkona og stendur með fólkinu sínu.

Dóra Björt Guðjónsdóttir er manneskja sem ég treysti. Hún er sterkur kostur fyrir Samfylkinguna og fyrir þau sem vilja ábyrg, heiðarleg og framsýn stjórnmál.

Ég mun kjósa Dóru Björt í dag í forvali Samfylkingarinnar í dag og mæli með því að þú gerir slíkt hið sama.

Höfundur er listakona, kennari og Reykvíkingur.




Skoðun

Sjá meira


×