Handbolti

Skýrsla Henrys: Nú er hún gamla Grýla dauð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Brosmildur Ýmir Örn Gíslason faðmar hér félaga sína eftir sætan sigur í kvöld.
Brosmildur Ýmir Örn Gíslason faðmar hér félaga sína eftir sætan sigur í kvöld. vísir/epa

Ísland er komið í milliriðil EM með tvö stig eftir 24-23 sigur á Ungverjum í Kristianstad í kvöld. Ótrúlegur leikur og skrípaleikur svo sannarlega á köflum.

Þetta er eitt slakasta ungverska lið sem ég hef séð lengi. Er íslenska liðið var að gera sig líklegt til þess að stinga þá af í fyrri hálfleik þá tóku hörmulegir makedónskir dómarar yfir leikinn og hleyptu Ungverjum aftur inn. Ótrúlegt að maður þurfi að horfa upp á svona hrottalega lélega dómgæslu á stórmóti árið 2026.

Jafnt í hálfleik, 14-14. Liðið missir Elvar Örn í meiðsli undir lok fyrri hálfleiks og Ýmir fær svo afar umdeilt rautt spjald í upphafi seinni hálfleiks. Alvöru áföll. Sem betur fer var Einar Þorsteinn orðinn heill heilsu og í hópnum.

Það var ekki að sjá að drengurinn hefði verið fárveikur síðustu daga því hann var stórkostlegur í vörninni. Hann og Elliði stigu upp í fjarveru Elvars og Ýmis og bundu saman stórkostlega vörn Íslands í seinni hálfleik. Þvílík innkoma hjá Einari en meiðsli Elvars er lögreglumál. Vonandi er hann ekki illa haldinn.

Fyrir aftan vörnina var svo Viktor Gísli í heimsklassaformi. Þegar sóknarleikurinn var í tómu tjóni hjá strákunum hélt Viktor þeim á floti. Með Viktor Gísla í svona formi er liðinu allir vegir færir.

Strákarnir voru nefnilega að gera sjálfum sér erfitt fyrir með agalausum sóknarleik. Er á reyndi steig Gísli Þorgeir upp og dró vagninn yfir línuna. Lygilegur leikmaður sem heldur áfram að heilla. Leiðtogi.

Ómar Ingi mataði menn eins og Magic Johnson í fyrri hálfleik en kom nánast ekki með neitt að borðinu sóknarlega í seinni hálfleik. Hann stóð vörnina gríðarlega vel en hann verður að fara að láta til sín taka í sókninni.

Ég hef mikið velt fyrir mér andlegum styrk liðsins en það hefur brotnað síðustu ár þegar mest er undir. Ekki í kvöld. Þá stóð liðið í lappirnar á lokakaflanum. Leiddir af Gísla og Viktori. Mikið framfaraskref sem vonandi gefur góð fyrirheit í framhaldinu.

Framhaldið lítur nefnilega vel út. Ísland fer með stig í milliriðilinn og það má svo sannarlega leyfa sér að dreyma. Draumurinn um undanúrslit lifir svo sannarlega og strákarnir eru búnir að koma sér í frábæra stöðu.

Þessi sigur var ekki bara góður heldur var hann sætur. Mjög sætur. Ungverjagrýlan var loksins jörðuð og ekki verra að gera það á þeim stað þar sem Ungverjar ráku rýting í hjarta Íslands fyrir þremur árum. Megi þessi Grýla hvíla í friði. Næstu áratugina hið minnsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×