Erlent

Hafi af­hent Trump Friðar­verð­laun Nóbels

Eiður Þór Árnason skrifar
María Corina Machado, einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, heilsar stuðningsfólki fyrir utan Hvíta húsið á fimmtudag.
María Corina Machado, einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, heilsar stuðningsfólki fyrir utan Hvíta húsið á fimmtudag. Ap/Pablo Martinez Monsivais

María Corina Machado, einn leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela, segist hafa afhent Donald Trump Bandaríkjaforseta friðarverðlaun Nóbels. Þetta hafi hún gert „til að viðurkenna einstaka skuldbindingu hans við frelsi okkar.“

Machado fékk friðarverðlaunin í fyrra vegna baráttu sinnar fyrir lýðræði í Venesúela. Hún hefur stutt umdeilda handtöku Bandaríkjastjórnar á Nicolás Maduro, forseta Venesúela, og lýsti því fljótlega yfir eftir aðgerðirnar að stjórnarandstaðan væri tilbúin að taka við stjórnartaumum í landinu. Bandaríkjastjórn hefur sýnt því boði lítinn áhuga fram að þessu.

Machado fundaði með Trump í Hvíta húsinu og greindi hópi blaðamanna í kjölfarið frá því að hún hafi afhent forsetanum verðlaunin en veitti takmarkaðar upplýsingar. Hvíta húsið hefur ekki gefið út hvort Trump hafi þegið Nóbelsorðuna.

Var í felum

Á fundinum er Machado sögð hafa rætt við Trump um framtíð Venesúela en hann hefur áður lýst því yfir að hann telji hana ekki vera trúverðugt leiðtogefni.

AP-fréttaveitan greinir frá þessu en heimsókn Machado er sögð nokkuð áhættusöm í ljósi þess að hún hefur verið í felum frá því að hún yfirgaf Venesúela í fyrra. Hún hafði áður verið í haldi í stuttan tíma í höfuðborginni Karakas.

„Við getum treyst á Trump forseta,“ sagði hún við stuðningsfólk fyrir utan Hvíta húsið eftir fundinn en skýrði það ekki nánar. Brugðust nokkrir við með því að hrópa: „Takk fyrir Trump.“

Trump hefur ítrekað lýst yfir efasemdum um Machado og þá treysta ekki allir yfirlýsingum hans um að styðja uppbyggingu á lýðræðislegu stjórnkerfi í Venesúela. Hann hefur gefið til kynna að hann sé tilbúinn að vinna með Delcy Rodríguez, starfandi forseta, sem var jafnframt sú næsta í valdaröðinni á eftir Maduro og náin samstarfskona hans.


Tengdar fréttir

Ætlar að taka við nóbelnum frá Machado

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist ætla að hitta Maríu Corina Machado, leiðtoga stjórnarandstæðunnar í Venesúela. Þá segir Trump að það yrði mikill heiður fyrir hann ef hún ákvæði að afhenda honum friðarverðlaun Nóbels, sem hún vann í fyrra.

Vill afhenda Trump friðarverðlaunin

Maria Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, segist ætla að snúa aftur til landsins eins fljótt og henni er auðið. Hún segist einnig vilja afhenda Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, friðarverðlaun Nóbels, sem hún hlaut í fyrra. Trump hefur sagt að hún njóti ekki nægilegrar virðingar til að stýra Venesúela eftir að hann lét nema Nicolás Maduro, forseta, á brott á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×