Innlent

For­stjóri Deloitte á­kærður fyrir kyn­ferðis­brot

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Í ákæru segir að Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte, hafi ekki látið af háttsemi sinni fyrr en vinkona brotaþola reif hann í burtu.
Í ákæru segir að Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte, hafi ekki látið af háttsemi sinni fyrr en vinkona brotaþola reif hann í burtu. vísir/Vilhelm

Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte á Íslandi, hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot. Honum er gefið að sök að hafa veist að ungri konu á hóteli á Suðurlandi vorið 2023. Brotið getur varðað allt að tveggja ára fangelsi.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness þann 20. janúar næstkomandi. Atvikið sem um ræðir átti sér stað á Hótel Rangá í maí árið 2023. Samkvæmt heimildum voru Þorsteinn og brotaþoli gestkomandi á hótelinu í sitt hvoru lagi og þekktust ekki.

Í ákæru er honum gefið að sök að hafa kysst brotaþola gegn hennar vilja. Hann hafi skömmu síðar hlaupið að henni, ýtt henni upp við vegg og sett tunguna upp í munn hennar. Þá hafi hann sett höndina inn fyrir nærbuxur konunnar og káfað á kynfærum hennar innanklæða.

Þá segir að ákærði hafi ekki látið af háttseminni fyrr en vinkona brotaþota kom að þeim, reif í jakka Þorsteins og öskraði á hann.

Í ákæru segir að háttsemin hafi verið til þess fallin að vekja hjá brotaþola ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.

Málið verður tekið fyrir í lokuðu þinghaldi í Héraðsdómi Reykjaness þann 20. janúar.Vísir/Vilhelm

Brotaþoli gerir fimm hundruð þúsund króna miskabótakröfu í málinu. Brotið er talið varða við 199. grein almennra hegningarlaga um kynferðislega áreitni en við því getur legið allt að tveggja ára fangelsi.

Héraðsaksóknari krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þorsteinn Pétur hefur verið forstjóri Deloitte frá árinu 2019 og er einn eigenda fyrirtækisins. Deloitte er eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði endurskoðunar og ráðgjafar og í fyrra störfuðu þar hátt í fjögur hundruð manns. Þá hefur Deloitte meðal annars sinnt fjölda verkefna fyrir hönd íslenska ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×