Skoðun

Að­för að heildrænni endur­hæfingu: Skamm­sýni á Reykja­lundi

Þórunn Hanna Halldórsdóttir, Elísabet Arnardóttir, Sigríður Magnúsdóttir og Þóra Másdóttir skrifa

Síðastliðið haust kom út vegleg bók á vegum SÍBS þar sem farið var yfir sögu Reykjalundar síðustu 80 árin. Þar mátti meðal annars finna góða útlistun á þróun endurhæfingar, þar á meðal sögu talmeinaþjónustu sem hefur verið veitt af föstum starfsmanni stofnunarinnar frá árinu 1979. Í tæp 47 ár hefur þessi þjónusta vaxið og dafnað, fyrst í einu stöðugildi en síðasta ár í tveimur.

Talmeinafræðingar hafa sinnt einstaklingum með fjölbreyttan vanda tengdan tali, máli, rödd, lestri og kyngingu. Skjólstæðingar þeirra hafa komið af öllum sviðum stofnunarinnar, þó flestir af taugasviði, enda er talmeinaþjónusta órjúfanlegur hluti af bataferli margra taugasjúkdóma.

Skammsýni og niðurskurður

Nýverið greindi formaður stjórnar Reykjalundar og starfandi forstjóri frá miklum fjárhagskröggum stofnunarinnar sem leiða myndu til skipulagsbreytinga. Nú er ljóst í hverju hluti af þeim breytingum felst: Það á að leggja niður talmeinaþjónustuna í heild sinni.

Það læðist að manni sá grunur að hér hafi verið valin sú leið sem er auðveldust í framkvæmd; að strika út eina litla deild í heild sinni frekar en að ráðast í flóknari forgangsröðun. Slík nálgun er í senn auðveld og stórlega misráðin. Þótt deildin sé smá í sniðum innan stórrar stofnunar er vægi hennar í endurhæfingarferlinu mikið. Með því að leggja hana niður með einu pennastriki er vegið að faglegum grunni starfseminnar og skjólstæðingar rændir tækifærinu til heildrænnar endurhæfingar.

Verktaka kemur ekki í stað teymisvinnu

Ef stjórnendur telja að hægt sé að brúa bilið með aðkeyptri verktöku, þá lýsir það vanþekkingu á eðli starfsins. Talmeinaþjónusta á endurhæfingarstofnun snýst ekki bara um að „beina þjálfun “ inni á stofu. Hún krefst náinnar samvinnu við önnur fög, þátttöku í teymisfundum og stöðugrar eftirfylgni í daglegu umhverfi sjúklingsins.

Verktaki sem kemur og fer er ekki hluti af hinu þverfaglega teymi. Hann hefur ekki sömu innsýn í heildarmyndina og fastráðið starfsfólk. Að ætla að leysa flókna endurhæfingarþörf með tímavinnu verktaka er bútasaumur, en ekki sú heildræna nálgun sem Reykjalundur hefur hingað til státað af. Þá er algjörlega litið fram hjá því að eftirspurn eftir talmeinafræðingum er mjög mikil og alveg óljóst hvernig eigi að laða þá til sín eftir þennan gjörning. Áform um að leita til Heyrnar- og talmeinastöðvar er skrýtið þar sem sú stofnun sinnir ekki þessum hópi skjólstæðinga, auk þess sem nú liggur fyrir frumvarp í þinginu um að leggja þá stofnun niður.

Afleiðingar fyrir sjúklinga

Við undirritaðar, fyrrverandi starfsmenn Reykjalundar, lýsum yfir djúpri sorg og áhyggjum yfir því að sjá þessari löngu sögu talmeinaþjónustu á Reykjalundi kastað á glæ svo snögglega.

Afleiðingarnar verða gífurlegar fyrir þann stóra hóp sjúklinga sem glímir við taugasjúkdóma og afleiðingar þeirra. Þá verður endurhæfing annarra sjúklingahópa, sem glíma við vanda í tali, máli, rödd eða kyngingu, einnig mun rýrari þegar sérþekkingar talmeinafræðinga nýtur ekki lengur við. Með því að fjarlægja þennan mikilvæga hlekk úr keðjunni er verið að gengisfella hugtakið „þverfagleg endurhæfing“ á Reykjalundi.

Höfundar eru talmeinafræðingar og störfuðu allar sem slíkar á Reykjalundi til skemmri eða lengri tíma á árunum 1979-2022.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×