Handbolti

Ís­lenski læknirinn hjá sænska lands­liðinu bjart­sýnn á að Palicka verði með

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andreas Palicka er frábær markvörður og virðist sem betur fer ekki hafa orðið mikið meint af því að vera skotinn niður í gær. 
Andreas Palicka er frábær markvörður og virðist sem betur fer ekki hafa orðið mikið meint af því að vera skotinn niður í gær.  Getty/Lars Baron

Sænski landsliðsmarkvörðurinn Andreas Palicka virðist hafa haft heppnina með sér þegar hann fékk þrumuskot í andlitið í gærkvöldi í undirbúningsleik Svía fyrir komandi Evrópumót.

Palicka var bara búinn að spila í fimm mínútur í leiknum þegar hann var skotinn niður. Hann fór inn í klefa og svo á sjúkrahús eftir leikinn. Í dag komu gleðifréttir úr herbúðum Svía.

„Maður verður auðvitað hræddur þegar um högg á auga er að ræða og vill fullvissa sig um að það sé ekkert alvarlegt. Ég er þakklátur fyrir að hafa fljótt fengið að hitta sérfræðing sem gat róað okkur,“ sagði Andreas Palicka í yfirlýsingu frá sænska landsliðinu.

Læknateymi sænska liðsins tók enga áhættu og sendi Palicka á sjúkrahús eftir að hafa fengið skot Brasilíumannsins í andlitið.

„Andreas komst fljótt til augnsérfræðings og það var staðfest að hann er með blæðingu inn á augað. Hann mun ekki æfa næstu daga, en við erum vongóð um að eftir nýtt mat geti hann byrjað að æfa aftur í byrjun næstu viku og verði klár í fyrsta leikinn á EM,“ segir Arnar Sigurðsson, íslenskur landsliðslæknir Svía.

Svíar mæta Hollendingum í fyrsta leik á Evrópumótinu 17. janúar næstkomandi en þeir eru einnig með Króötum og Georgíumönnum í riðli. Riðill Svía fer fram í Malmö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×