Innlent

Tuddi hlaut dóm fyrir að níðast á naut­gripum sínum

Kjartan Kjartansson skrifar
Tæplega þrjátíu nautgripir voru dauðir í húsi þegar starfsmenn Matvælastofnunar studdir lögreglu fóru í eftirlitsferð á bæ bóndans. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Tæplega þrjátíu nautgripir voru dauðir í húsi þegar starfsmenn Matvælastofnunar studdir lögreglu fóru í eftirlitsferð á bæ bóndans. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. Vísir/Vilhelm

Nautgripabóndi sem fór svo illa með dýr að tugir þeirra drápust eða voru aflífuð hlaut sex mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm og er bannað að hafa dýr í umsjá sinni í fimm ár. Bóndinn hirti meðal annars hvorki um að gefa dýrunum vott eða þurrt.

Matvælastofnun kærði bóndann til lögreglu í apríl árið 2024 og gaf lögreglustjóri út ákæru á hendur honum fyrir stórfelld brot gegn lögum um velferð dýra í júlí í fyrra. Í tilkynningu stofnunarinnar í fyrra kom fram að lögreglan á Norðurlandi vestra hefði málið til rannsóknar.

Bóndanum var gefið að sök að hafa misboðið og vanrækt á stórfelldan hátt umönnunarskyldur sínar með því að tryggja nautgripum sínum ekki aðgang að fóðri eða vatni, tryggja að þeir fengju læknismeðferð eða væru aflífaðir. Þá hafi hann yfirgefið þá í bjargarlausu ástandi.

Framferði bóndans er sagt hafa orðið til þess að 29 nautgripir drápust. Þeir fundust dauðir í gripahúsi á bæ bóndans í eftirlitsferð Matvælastofnunar sem lögregla tók þátt í.

Í kjölfarið aflífaði Matvælastofnun 21 dýr til viðbótar sem var hýst í gripahúsinu og var í slæmu ástandi. Alls lét stofnunin aflífa eða slátra 49 nautgripi bóndans.

Ekki kemur fram í tilkynningu Matvælastofnunar hvaða dómstóll felldi dóminn yfir bóndanum. Engir dómar hafa verið birtir á vef Héraðsdóms Norðurlands vestra, umdæminu þar sem lögreglurannsóknin fór fram, sem passa við lýsingarnar á máli bóndans.

Héraðsdómur Norðurlands vestra er þekktur fyrir handahófskennda birtingu dóma. Nýjustu dómarnir á vef dómstólsins eru frá 16. desember. Aðeins átta dómar birtustu á vefnum allt síðasta ár og enginn á sex mánaða tímabili frá lokum mars til loka septembers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×