Skoðun

Treystum við ríkis­stjórninni fyrir náttúru Ís­lands?

Guðmundur Hörður Guðmundsson skrifar

Upp á síðkastið hefur orðræða umhverfisráðherra og forstjóra Landsvirkjunar verið á þá leið að almenningur sé upp til hópa mjög fylgjandi virkjanaframkvæmdum í landi sem er nú þegar eitt það allra raf- og iðnvæddasta í alþjóðlegum samanburði. Mig grunar þó að framkvæmdagleðin í náttúru Íslands sé ekki alveg eins vinsæl og þeir virðast hafa talið sér trú um, hvort sem litið er til einstakra framkvæmda eða þeirra heildaráforma sem orkufyrirtækin og ríkisstjórnin hafa boðað. Hér eru nokkur dæmi um það sem er í vinnslu og undirbúningi:

-Ríkisstjórnin ætlar að færa Kjalölduveitu við Þjórsárver og Héraðsvötn í Skagafirði úr verndarflokki gegn niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

-Ríkisstjórnin ætlar að færa Skrokköldu á miðju hálendinu og í jaðri Vatnajökulsþjóðgarðs úr biðflokki rammaáætlunar í virkjanaflokk.

-Ríkisstjórnin ætlar ekki að setja Hamarsvirkjun í jaðri Lónsöræfa í verndarflokk eins og var niðurstaða rammaáætlunar.

-Ríkisstjórnin færir vindorkuver í Garpsdal við Breiðafjörð í virkjanaflokk þó að niðurstaða sérfræðinga rammaáætlunar hafi verið að svæðið ætti að fara í vernd.

-Landsvirkjun er að reisa Hvammsvirkjun með sérlögum ríkisstjórnarinnar vegna þess að dómstólar dæmdu hana ólöglega.

-Ríkisstjórnin ætlar að færa Urriðafoss í neðri hluta Þjórsár í virkjanaflokk.

-Landsvirkjun reisir nú vindorkuver við Búrfell.

-Orkuveita Reykjavíkur er í áframhaldandi landnámi í kringum Hellisheiðarvirkjun vegna ofnýtingar jarðhitans við raforkuframleiðslu til álvers. Fyrirtækið er einnig að undirbúa vindmylluver á Mosfellsheiði.

-Vesturverk hefur tilkynnt að framkvæmdir við Hvalárvirkjun séu að hefjast með tilheyrandi röskun á víðernum Ófeigsfjarðar á norðanverðum Vestfjörðum.

-HS Orka borar nú innan friðlýsts útivistarsvæðis í Krýsuvík, m.a. til ósjálfbærrar raforkuframleiðslu.

-Um fjörutíu vindorkuver eru nú í undirbúningi á landinu öllu.

Hér eru ótalin öll baðlónin, hótelin og allar fiskeldiskvíarnar sem eru í byggingu eða eru áformuð í eða við hinar ýmsu náttúruperlur, t.d. Skaftafell, Hoffellslón og Mjóafjörð. Kannski að þetta öfgafulla landnám sem ríkisstjórnin hefur lagt blessun sína yfir kunni að valda því að hluta að stuðningur við hana hefur fallið úr 69% í 55% á fyrsta starfsárinu. Það hefur nefnilega sýnt sig í skoðanakönnunum í gegnum tíðina að yfirleitt eru fleiri fylgjandi vernd náttúrunnar en virkjanaframkvæmdum. Líklega er þessi hópur nú farinn að átta sig á að ríkisstjórninni er ekki treystandi fyrir náttúru Íslands.

Höfundur er umhverfisfræðingur og áhugamaður um náttúruvernd.




Skoðun

Sjá meira


×